Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra varði miklu af ræðutímanum sínum í dag í að tala um hvað allt væri allt rosalega flókið en kemur nú hér í lokin og segir að þetta sé bara alls ekkert flókið, þannig að málið hefur greinilega eitthvað skýrst í umræðum. Og ég verð að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að tala vel um íslenska álframleiðslu og setja þá hluti aðeins í samhengi því að ekki veitir af stuðningi frá stjórnarliðum í því efni. Þetta er eiginlega í fyrsta skipti um nokkurt skeið sem hæstv. ráðherra víkur frá stefnu Vinstri grænna í loftslags- og umhverfismálum.

En hér áðan fékk hæstv. ráðherra fyrirspurn um áformað bann við rannsóknum og vinnslu á olíu og gasi í íslenskri lögsögu. Svarið var þess efnis að þótt það sé margt sem ég myndi vilja leiðrétta og spyrja hæstv. ráðherra um þá er ekki hægt annað en að benda á í raun fáránleika svarsins eða a.m.k. gefa hæstv. ráðherra tækifæri til að skýra nánar hvað hann var að fara.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er ástæðan fyrir þessu áformaða banni? Er það vilji til að færa fórn, eins og þetta hefur verið kynnt, færa fórn fyrir alþjóðasamfélagið og sýna þannig dyggð, ráðast í sýndarmennsku með þessari fórn? Eða snýst þetta um það að ríkisstjórnin telji að það sé ekki hægt að vinna olíu og gas og þess vegna sé hægt að banna það? Með öðrum orðum að það skipti engu máli að banna það en að það sé verið að gera það bara til að sýnast. Þetta eru tvær tegundir af sýndarmennsku en sýndarmennska í báðum tilvikum. Hvort á við hjá ríkisstjórninni? Eða er það ólíkt eftir flokkum?