Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:16]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Undir málasvið ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar falla málaflokkar um vísindi, rannsóknir, nýsköpun, þekkingargreinar, háskóla, fjarskipti, netöryggi og stafræna þróun. Þar sem ber hæst er áframhaldandi stuðningur við rannsóknir og þróun, aðgerðaáætlun í netöryggi og nýr samstarfssjóður háskóla.

Heildarfjárheimildir til málaflokka um vísindi og nýsköpun eru áætlaðar annars vegar 14 milljarðar rúmlega og hins vegar 15 milljarðar rúmlega. Hækkun til rannsókna og þróunar var fyrst um sinn liður í mikilvægum mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna faraldursins. Aðgerðirnar voru margar hverjar tímabundnar en hafa verið framlengdar þar sem gríðarlegur ávinningur sést af bættu umhverfi til nýsköpunar. Ákveðið var að veita áframhaldandi endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar sem hefur verið stór liður í árangri íslensks hugvits og styðja áfram við samkeppnissjóði með veglegum hætti. Á árinu 2021 námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar ríflega 192 milljörðum kr. og hafa því vaxið um 91% frá árinu 2013. Þessi mikli vöxtur er ekki tilviljun. Við eigum einstaka frumkvöðla en stórstígar breytingar á umhverfi nýsköpunar hér á landi sem ríkisstjórnin hefur lagt í hafa skipt miklu máli. Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru því að fjárheimild til samkeppnissjóðs, Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs er hækkuð tímabundið á tímabilinu í samræmi við stefnu og mótvægisaðgerðir stjórnvalda gegn heimsfaraldri og stefnu Vísinda- og tækniráðs. Samhliða er verið að vinna að ítarlegri greiningu á áhrifum skattfrádráttar fyrir fyrirtæki og samkeppnishæfni sem unnin verður í samstarfi við OECD sem mun skila af sér í haust. Annað sem ber hátt er átaksverkefni um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðistækni þar sem fjárheimild er aukin um 60 millj. kr. og á næstu dögum verður auglýst eftir umsóknum. Styrkveitingin verður háð því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig við að innleiða þá nýsköpun sem styrkur er sóttur um. Markmiðin eru skýr: Vísindastarf á heimsmælikvarða, hagnýting hugvits, tæknilausna og skapandi lausna við brýnum samfélagslegum áskorunum, bætt samkeppnisstaða og að skapa ný störf í þekkingargeiranum.

Þá eru það fjarskipti. Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2023 er áætluð 1.750 millj. kr. Helstu breytingarnar þar eru til stuðnings aðgerðaáætlunar um netöryggi, sem kynnt verður í október þegar netöryggismánuður verður haldinn. 146 millj. kr. verður varið til áframhaldandi uppbyggingar netöryggissveitar Fjarskiptastofu og 200 millj. kr. til netöryggismála og er þar einkum horft til fjármögnunar netöryggisaðgerða ýmissa ráðuneyta á næsta ári. Hér eru markmiðin einnig skýr, aðgengileg, greið og örugg fjarskipti ásamt eflingu netöryggis og skýrum aðgerðum til þess.

Þá er það málaflokkur um háskóla. Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2023 er áætluð 51.487 millj. kr. Þar er sérstaklega kveðið á um nýjan samstarfssjóð háskóla sem er settur á laggirnar til að ýta undir nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Öflugt samstarf háskólanna er forsenda aukinna gæða háskólanáms á Íslandi. Samstarf háskóla þvert á landshluta og rekstrarform hefur vaxið mjög á undanförnum árum en ég vil sjá háskólana ganga lengra enda tel ég næstum útilokað að háskólanemar hér á landi fái menntun á heimsmælikvarða nema skólar taki höndum saman. Alþjóðleg samkeppni um háskóla mun aukast á næstu árum með aukinni stafrænni miðlun náms og það er mikilvægt að íslenskir háskólar verði samkeppnishæfir í því vali ungs fólks. Til samstarfssjóðs fer ekki viðbótarfjármagn heldur heyrir það undir safnlið innan málefnasviðs 21, um háskólastig, í fjárlögum. Samstarfssjóðurinn styður við áherslur ríkisstjórnarinnar um einföldun stofnanakerfisins með það að markmiði að það verði burðugra, sveigjanlegra og hagkvæmara. Háskólum er síðan tryggð sama fjárheimild fyrir árið 2023 með því viðbótarframlagi sem kom inn vegna heimsfaraldurs. Nemendum fjölgaði í háskólunum vegna þess og það þarf að horfa til þess hver þróunin verður síðan í nemendafjölda en það viðbótarframlag helst inni fyrir árið 2023 þó að nemendum fari nú fækkandi. Markmiðin í þessum málaflokki eru skýr, að auka gæði náms og námsumhverfi í háskólum, styrkja rannsóknarstarf og auka tengsl háskóla í samfélaginu. Þá ætla ég að nefna hér námsmenn í lokin, þar innan ramma er grunnframfærsla stúdenta hækkuð um 18% sem mun vonandi koma nemendum til góða, styrkja stöðu þeirra og framvindu í náminu en námsmenn hafa lengi barist fyrir slíkri hækkun á grunnframfærslu og hefur verið þeirra stærsta baráttumál undanfarin ár.

Helsta verkefni ráðuneytisins er að hugvit verði stærsta útflutningsgreinin og eru því (Forseti hringir.) í stjórnsýslu ráðuneytisins sett skýr markmið um bætta árangursvísa og tölfræði til að ná settum markmiðum og unnið að heildstæðri upplýsingagátt málefnasviðsins til að ná öllum þeim markmiðum og árangri sem að er stefnt.