Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:25]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð, aftur og nýbúinn. Til að svara spurningu þinni, hv. þm. Halldóra Mogensen, þá er þetta meira og minna mín tilfinning og reynsla mín úr þessum heimi sem ég hef kynnst og af eðli viðskipta. Það liggur ljóst fyrir að um leið og búið er að afglæpavæða þá er svo auðvelt að bjóða einhverjum efni til prufu til að byrja með, gefa þeim einn skammt, meðan gróðavonin er slík og einstaklingar sem eru duglegir sölumenn og geta selt alveg hægri vinstri verða ekki lögsóttir. Ég er að segja við þig og ykkur að ég vil hugsa þetta til enda. Ég er algerlega með fíklum, virkum fíklum, ég skil hina sem ekki eru fíklar en eru samt í neyslu. Ég var að horfa á viðtal við Ronnie Wood, gítarleikara Rolling Stones, en hann var í alvarlegri neyslu í 30 ár og svo rann af honum þegar hann var 63 ára gamall og það var svolítið gaman að fylgjast með hvernig hans sýn á þetta var. En mín sýn er sú að við þurfum að hugsa þetta aðeins víðara heldur en bara að afglæpavæða og leyfa öllum að prufa. Og á sama tíma og efnið er ólöglegt þá er samt löglegt að vera með það. Ég sé ekki hvernig það getur gengið upp. Hvar á fólk að fá þetta ef þetta er ólöglegt en má samt vera með það því að það er löglegt?

(Forseti (LínS): Forseti vill minna þingmenn á að beina orðum sínum til forseta en ekki einstakra þingmanna.)