Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:41]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talar um að þetta sé fyrsta skrefið. En það er nú kannski bara einmitt málið, sumum finnst of mikið í húfi til þess að þetta sé fyrsta skrefið af því það eru ekki allir sammála um vinnubrögðin eða hversu vönduð vinnubrögð eru við þessa lagasetningu, þetta frumvarp. Þess vegna er ég að segja að það sé svo mikilvægt að við séum að taka umræðuna og í raun og veru erum við þannig að hjálpast að við að komast nær þessu skrefi. Ég held að það sé eitthvað sem sé dýrmætt og skipti gríðarlega miklu máli í þessu lýðræðislega samfélagi sem við búum í.

Mig langaði að velta því upp sem hv. þingmaður talaði um, að setja stefnu og þetta væri fyrsta skrefið í því að setja stefnu. Nú sagði hv. þingmaður að ef stjórnvöld eða ríkisstjórnin væri ekki tilbúin að setja stefnuna myndi velferðarnefnd kannski hugsanlega gera það. Mig langaði að fá meira frá þingmanninum um það hvernig hann sér fyrir sér að við förum að móta þessa stefnu, ef við byrjum ekki á því að fara í heildarendurskoðun á málaflokknum frá A til Ö þannig að við vitum hvar við byrjum og hvar við ætlum að enda og hvert markmiðið er og við sammælumst um það þannig að stefna stjórnvalda verði skýr og skili árangri.