Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:49]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég veit að við höfum lítinn tíma þannig að ég skal vera mjög snögg. Það sem ég las t.d. úr þessari fyrirspurn hv. þingmanns til skriflegs svars varðandi beitingu refsinga, nú er ég ekki með þetta fyrir framan mig til að lesa það aftur, var að það væri ekki til neitt rosalega mikið af gögnum til að greina. Ég las ekki út úr því að það væri staðfest og tryggt að lögreglan væri aldrei að refsa fólki fyrir að nota vímuefni. Það skýtur algerlega skökku við allar þær upplýsingar sem ég hef frá notendum sjálfum sem eru að lenda í lögreglunni trekk í trekk og frá því fólki sem vinnur mjög náið með notendum með sín skaðaminnkunarúrræði. Það er allt önnur saga. Lögreglan er svo sannarlega að hafa afskipti og er að refsa fólki enn þá og haldlagning efna er refsing. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvaða árangri telur hún að við séum að ná með refsingum? Hvað er það sem réttlætir það að við höldum áfram að refsa fólki?