153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[13:38]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á að málefni örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með mismikla starfsgetu. Er þar sérstaklega horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Þá er einnig sett fram það markmið að einstaklingum sem missa starfsgetuna verði í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á starfsgetu þeirra.

Frumvarp þetta inniheldur fyrsta skref í átt að nýju greiðslu- og þjónustukerfi vegna starfsgetumissis. Markmið þess er að tryggja að regluverk greiðslukerfisins sé til þess fallið að styðja við starfsendurhæfingarferil einstaklinga og möguleika þeirra til samfélagslegrar virkni og atvinnuþátttöku. Reynslan hefur sýnt okkur að vegna skorts á sveigjanleika í gildandi kerfi höfum við misst fólk af vinnumarkaði og yfir á örorku þegar starfsendurhæfing er ekki fullreynd að mati endurhæfingaraðila. Þessu verðum við að breyta.

Meginefni frumvarpsins varðar breytingar á regluverki um lengd tímabundinna greiðslna til einstaklinga í kjölfar starfsgetumissis, nánar tiltekið lengingu á greiðslutímabili endurhæfingarlífeyris. Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð er nú heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Þá er samkvæmt lögunum heimilt að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Hámarkstímabil samkvæmt gildandi lögum getur því náð yfir allt að þrjú ár.

Í frumvarpi því sem ég mæli fyrir nú er lagt til að greiðslutímabilið verði lengt þannig að heimilt verði að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði með möguleika á framlengingu um 24 mánuði. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimild til framlengingar greiðslna verði bundin því skilyrði að starfsendurhæfing með aukna atvinnuþátttöku að markmiði sé enn talin raunhæf. Þannig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að réttarstaða þeirra einstaklinga sem fá tímabundnar greiðslur meðan á starfsendurhæfingu stendur verði styrkt með því að lengja hámarksgreiðslutímabil endurhæfingarlífeyris úr þremur árum í fimm ár.

Er með þessu móti stefnt að því að bæta réttarstöðu einstaklinga með alvarlegan heilsuvanda, svo sem ungs fólks með nýlegar geðgreiningar þar sem viðeigandi heilbrigðismeðferð er ekki lokið, og gera þeim kleift að ljúka læknisfræðilegri meðferð og starfsendurhæfingu með því að tryggja þessum einstaklingum nauðsynlega framfærslu, vonandi eins lengi og nauðsynlegt er. Þannig er leitast við að fyrirbyggja ótímabæra örorku fólks, sér í lagi ótímabært brotthvarf ungs fólks af vinnumarkaði, í þeim tilfellum þegar ekki er útséð um hvort frekari starfsendurhæfing muni skila tilætluðum árangri.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Íslands hefur skipað stýrihóp fjögurra ráðuneyta; forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, og er hópnum m.a. ætlað að hafa yfirsýn yfir störf verkefnisstjórnar ráðuneytanna, sem er undir stjórn félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, er snýr að heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og tryggja framgang verkefnisins. Hefur stýrihópurinn kynnt sér efni þessa frumvarps og styður markmið þess. Einnig hefur frumvarpið verið kynnt nýskipuðu endurhæfingarráði, sem er samstarfsvettvangur um endurhæfingu þvert á velferðarkerfi félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, enda samræmist það vel áherslum mínum og heilbrigðisráðherra um heildræna nálgun við mat á þjónustuþörf og samfellu í endurhæfingarþjónustu þvert á velferðarkerfi ráðuneytanna. Þá var frumvarpið unnið í góðu samráði við heildarsamtök fatlaðs fólks áður en að opnu samráði kom í samráðsgátt þar sem frumvarpinu var jafnframt vel tekið.

Ég vil einnig leggja áherslu á að á undanförnum árum hafa tveir starfshópar í skýrslum sínum lagt til að greiðslur vegna endurhæfingar yrðu greiddar að hámarki í fimm ár í stað þriggja ára. Er tekið mið af tillögum þessara starfshópa í frumvarpi þessu og ráðlegginga fagaðila á sviðinu sem styðja það að lenging greiðslutímabils endurhæfingarlífeyris auki líkur á því að ná megi meiri árangri í starfsendurhæfingu og að fleiri geti þannig til lengri tíma framfleytt sér sjálfir, að hluta eða að öllu leyti, með þátttöku á vinnumarkaði. -- Ráðuneyti mitt hefur á undanförnum árum unnið markvisst að framgangi starfsendurhæfingar með það að markmiði að fjölga þeim sem geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Þannig hefur verið lögð aukin áherslu á að starfsendurhæfing sé reynd áður en kemur til mats á örorku. Hefur sérstök áhersla verið lögð á aðgerðir til að auka virkni ungs fólks sem er í óvirkni, með áherslu á þann hóp sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Árangurinn af þessu hefur verið sá að dregið hefur úr nýgengi örorku, sem má rekja beint til þess að starfsendurhæfing hefur í auknum mæli verið reynd. Þannig hefur tekist að forða mörgum einstaklingum frá því að þurfa að þiggja langtímagreiðslur örorkulífeyris í stað þess að vera tryggð viðeigandi þjónusta og stuðningur og fyrir vikið tækifæri til virkni í lífi og starfi.

Tölurnar tala sínu máli og er ánægjulegt að greina frá því hér að nýgengi örorku hjá Tryggingastofnun hefur lækkað um 28% milli áranna 2016 og 2020. Þá þróun má fyrst og fremst rekja til fjölgunar þeirra sem láta reyna á starfsendurhæfingu áður en kemur til mats á örorku. Rannsóknir sýna jafnframt að virkni á vinnumarkaði skilar sér í aukinni vellíðan fólks og bættri heilsu. Ég er þess fullviss að lenging greiðslutímabilsins geti stuðlað að enn betri árangri í þessum efnum samhliða þeim aðgerðum sem fyrirhugað er að ráðast í á næstunni á vettvangi starfsendurhæfingar sem allar hafa það að markmiði að tryggja einstaklingum sem missa starfsgetuna þjónustu og stuðning strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta.

Það er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga að ungt fólk, 18?29 ára, hefur verið í sérstökum áhættuhópi hvað ótímabært brotthvarf af vinnumarkaði varðar hér á landi samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir, enda hefur þar verið lögð aukin áhersla á að framfærsla þess hóps sé ákvörðuð tímabundið þann tíma sem ekki er fyrirséð hverjir möguleikar fólks eru til virkni til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið hvað felist í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar og varðar breytingu á lögum um félagslega aðstoð sem gert er ráð fyrir að öðlist gildi strax um næstu áramót. Ég vil því biðla til þingsins að afgreiða þetta mikilvæga mál hratt og vel þannig að tryggja megi að einstaklingar sem þiggja endurhæfingarlífeyri samhliða virkri starfsendurhæfingu fái þegar notið lengra greiðslutímabils. Það mun án efa stuðla að bættri stöðu fólks sem er í viðkvæmri stöðu, í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar er snúa að bættri þjónustu við einstaklinga sem verða fyrir starfsgetumissi með aukna virkni og velferð fólks að markmiði. Höfum það hugfast að það munar mikið um hvern einasta einstakling sem unnt er að endurhæfa til virkni í samfélaginu. Þetta segi ég með hag einstaklingsins og samfélagsins alls í huga. Ég er sannfærður um að verði frumvarpið að lögum muni það verða til þess að við munum ná enn betri árangri í þessum mikilvæga málaflokki.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.