Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:01]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Bara til að taka af allan vafa um það þá er ekki með þessu frumvarpi verið að breyta skilyrðum fyrir starfsendurhæfingunni heldur erum við einfaldlega að lengja tímann og lengja möguleikana á tímanum. Þess vegna snýst þetta um það hversu lengi þú átt að fá framfærslu meðan þú ert í starfsendurhæfingunni og á einmitt að geta gripið fólk sem að öðrum kosti hefði ekki fengið tækifæri til að þjálfa sig áfram með þeim möguleika að geta náð út á vinnumarkaðinn. Þannig að hér er alls ekki verið að dæma neinn úr leik. Við erum akkúrat að fara í hina áttina, við erum að fá sem flesta inn í leikinn.

Hv. þingmaður spyr mig líka varðandi fleiri og fjölbreyttari starfsendurhæfingarúrræði. Það var eitt af því sem kom fram í umsögnum við þetta frumvarp í samráðsgátt, að það þyrfti að huga að því. Við erum ekki að taka á því í þessu frumvarpi, vissulega ekki, það snýst ekki um það, en það er eitthvað sem er til skoðunar. Við erum m.a. með nefnd starfandi núna á vegum ráðuneytisins um vinnu og velferð á vinnumarkaði sem er einmitt ætlað að horfa til bæði fjölgunar hlutastarfa, sveigjanlegri starfa og þar með líka snemmtæka íhlutun á vinnumarkaði þegar stefnir í að fólk sé mögulega að detta út, til að styðja fólk sem fyrst í ferlinu við það að halda áfram. Þó svo að það geti kannski ekki haldið áfram 100% getur það kannski haldið áfram 50%. Þess vegna held ég að við séum hér með bara mjög mikilvægt mál. Þetta er skref í rétta átt. Við höfum talað um það þannig í ráðuneytinu hjá mér að þetta sé í rauninni fyrsta skrefið okkar í þessari heildarendurskoðun á kerfinu. Þess vegna hlakka ég til að koma því til þingsins.