Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

vísitala neysluverðs.

20. mál
[15:43]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995, með síðari breytingum (vísitala neysluverðs án húsnæðis). Með mér á frumvarpinu eru hv. þingmenn Flokks fólksins Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal taka tillit til húsnæðiskostnaðar við útreikning vísitölu neysluverðs.“

2. gr. frumvarpsins hljóðar svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpi þessu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var lagt fram á 152. löggjafarþingi (279. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt.“

„Verðbólga mælist nú langt“ — og eina ferðina enn segi ég langt — „umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Stærsti einstaki orsakavaldurinn er sífellt hækkandi húsnæðisverð. Þetta veldur keðjuverkandi áhrifum sem leiða til þess að greiðslubyrði heimilanna þyngist og lánin hækka til muna.“

Ég er víst ekki að segja nein nýmæli hvað þetta varðar. Það er alveg óhætt að fullyrða hér og nú að landsmenn finna svo sannarlega fyrir því hvernig þróunin er að verða hjá okkur í dag.

Þegar frumvarp þetta var lagt fram við upphaf þings þá mældist verðbólgan 9,9% en þá var verðbólga án húsnæðisliðar um 7,5%. Verðbólgan mælist hins vegar nú þegar þessi orð eru töluð 9,4%. Hún hefur lækkað um hálft prósentustig frá því að þingið kom saman í haust en mælist 7,2% ef húsnæðisliðurinn er tekinn út.

„Helstu greiningaraðilar spá áframhaldandi hækkunum á húsnæðisverði, m.a. vegna framboðsskorts á húsnæði. Því er útlit fyrir verulegar hækkanir á vísitölu neysluverðs á næstu misserum vegna hækkandi húsnæðisverðs. Allir vita hvaða skelfilegu afleiðingar verðbólgan hafði á verðtryggð lán íslenskra fjölskyldna landsins í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þar tvöfölduðust skuldir heimilanna á einni nóttu og hátt í 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín. Þetta má aldrei gerast aftur.“

Því miður, ef ekki verður gripið inn í núna og eitthvað raunverulegt gert til þess að draga úr þessari gríðarlegu hækkun verðbólgunnar og þenslunnar sem á sér stað af hennar völdum, afleiðingum af hækkandi vöxtum bankanna, hækkandi lánum, þá gæti höfuðstóll 40 millj. kr. verðtryggðs láns hækkað um hvorki meira né minna en 33.000 kr. á mánuði. Við erum að tala um 400.000 kr. á ári.

„Til að sporna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar á heimilin er lagt til að húsnæðisliðurinn verði felldur út úr vísitölu neysluverðs. Með slíkri breytingu má draga verulega úr mældri verðbólgu og þar með hörðustu áhrifum vísitöluhækkana á fjárhag fjölskyldufólks, sérstaklega þeirra sem sitja fastir í viðjum verðtryggðra húsnæðisskuldbindinga.“

„Því hefur verið haldið fram að það grafi undan trúverðugleika verðbólgumælinga að taka húsnæðisliðinn út. Það er einfaldlega ekki rétt.“ — Með öðrum orðum þá er það rangt, virðulegi forseti. — „Hagstofan heldur þegar til haga vísitölubreytingum án húsnæðis og því ætti stofnunin að geta breytt framkvæmdinni til samræmis við frumvarp þetta án mikillar fyrirhafnar. Áfram verður hægt að birta opinberlega vísitölu neysluverðs með húsnæðisliðnum. Um þetta segir í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um frumvarp þetta á síðasta löggjafarþingi:

„Hagstofan birtir nefnilega vísitölu neysluverðs bæði með og án húsnæðis svo langt aftur sem mælingar ná og greiningaraðilar gætu því eftir sem áður stuðst við hvora þeirra sem þeir vilja frekar nota. Jafnframt myndi breytingin hafa þau raunverulegu áhrif að árshækkun verðtryggðra skuldbindinga myndi strax lækka …“

Virðulegi forseti. Þessari verðtryggingu var komið á með einu pennastriki. Það vafðist ekki fyrir þeim á þeim tíma að setja verðtryggingunni á en ólíkt þeirri verðtryggingu sem er á neytendalánum nú, og eingöngu þeim, og lánum, þá var það áður svo að laun voru líka verðtryggð. Fólk var líka með verðtryggingu á laununum sínum, sem fylgdi þá bara þessari vísitölu algjörlega leynt og ljóst, en einhverra hluta vegna fannst þeim voða sniðugt að rjúfa þetta samband, klippa launin frá og lofa launþegunum að sitja eftir.

Virðulegi forseti. Ég óska þess að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni 1. umr. en vil þó segja þetta að lokum: Þetta er í rauninni með hreinum ólíkindum miðað við það sem ég áður sagði hér, að hátt í 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín eftir síðasta efnahagshrun. Hér hef ég staðið áður í þessum ræðustól fyrir tæpum tveimur árum síðan og bent á að það væru allar forsendur fyrir því að við værum að ganga inn í verðbólguskot. Það er víst ekki hægt að tala um verðbólguskot lengur. Þetta er miklu meira en verðbólguskot, við erum í blússandi verðbólgu að berjast um á hæl og hnakka og ríkisstjórninni og ríkisvaldinu er í lófa lagið að lækka þessa verðbólgu á stundinni um vel á þriðja prósent. Það myndi sannarlega muna miklu.

Í beinu framhaldi langar mig að nefna að það er athyglisvert, þrátt fyrir allt það sem við erum að ganga í gegnum núna; hækkandi vexti, blússandi verðbólgu, fólk sem hætt er að geta greitt af lánunum sínum — það fer ekkert á milli mála að þróunin er að eiga sér stað fyrir framan augun á okkur — að þrátt fyrir það skuli einhver reyna að réttlæta það að halda húsnæðisliðnum inni í vísitölunni. Það er með hreinum ólíkindum.

Annað sem er mjög athyglisvert er að þrátt fyrir allt það sem ég segi hér, blússandi vexti, verðbólgu og nefnið það bara, allt fer hækkandi, þá hækka bankarnir samt sem áður lánin sín og afborganirnar langt umfram verðbólgu og vexti. Til dæmis hefur greiðslubyrðin af litlu láni sem ég er með í Arion banka hækkað um 30% síðan í vor. Hvernig má það vera þegar vextirnir af því eru ríflega 7% og verðbólgan mælist ríflega 9%? Að vísu er lánið óverðtryggt en það breytir samt sem ekki þeirri staðreynd að greiðslubyrðin af láninu er búin að hækka um 30%, langt umfram verðbólgu og vextina. Bankarnir eru að soga til sín og ég vil halda því fram að þetta sé ósvífið. Þeir hafa sogað til sín fjármagn í krafti valds síns langt umfram verðbólgu og vaxtaþáttinn. Maður hefur kannski óvart hnerrað inni í einum þeirra og þá hefur 100.000 kr. aukaskatti verið kastað í mann fyrir það. Álögurnar sem eru lagðar á viðskiptavini þessara banka eru orðnar með slíkum ólíkindum, þetta er svo opið í báða enda, að maður er í rauninni varla farinn að átta sig á því hvað í ósköpunum er í gangi þarna.

Þetta er lítið frumvarp sem skiptir alla ofboðslega miklu máli. Eina ástæðan fyrir því að þessi húsnæðisliður hefur verið látinn hanga inni í vísitölunni — að vísu eini staðurinn í heiminum sem þessi mæling fer fram á því formi sem gerist hér — er að ef sú staða kæmi að fasteignaverð á markaðnum færi að lækka þá myndu fasteignaeigendur, hamingjan góða, tapa einhverjum krónum. Ég bið nú bara þann einstakling og hv. þingmann sem kemur auga á það að fram undan sé einhver lækkun á fasteignamarkaði að gefa sig einfaldlega fram en styðja að öðrum kosti þetta frumvarp og hjálpa okkur að afnema og henda þessum húsnæðislið út úr vísitölunni.