Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[11:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. matvælaráðherra hvort hún sé ekki sammála mér um að lögin sem mælt var fyrir í desember 2020, og samþykkt voru í apríl 2021, sem voru breyting á lögum um tekjuskatt, hafi verið til að hvetja til fjárfestinga eins og yfirskrift laganna segir. Andi laganna var þessi: Við vildum hvetja til fjárfestinga og einkum grænna fjárfestinga með ívilnandi ákvæðum. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að það sé langsótt túlkun að þessir hvatar eigi líka að verða til þess að veiðigjöld lækki almennt? Við sem vorum hér og samþykktum þessi lög í apríl 2021 vorum að huga að því að einstaka lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri myndu frekar fara út í fjárfestingar á þeim erfiðu tímum sem okkur þóttu blasa við (Forseti hringir.) en við ætluðumst ekki til þess að það væri ívilnandi fyrir alla aðra sem eru í útgerð yfir höfuð.