Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Að gefnu tilefni vil ég fyrst leiðrétta það sem kom fram hjá hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Hún var að koma af fundi með mér fyrir einhverjum mínútum síðan þar sem ég fór ítrekað, í tvígang, yfir það með henni hvað ég á við með samstarfi um rekstur á flugvél með Isavia. Ég greindi henni frá því að það hefur aldrei verið ætlunin og aldrei komið fram í mínum málflutningi að sú vél myndi leysa vél Landhelgisgæslunnar af hólmi og geta sinnt því hlutverki. En hér er komið í ræðustól Alþingis og vísvitandi, þrátt fyrir þessar upplýsingar, er röngu haldið fram, enn og aftur. Það á auðvitað við um margt í þessu. Ég ítreka að þessi ákvörðun, sem er sársaukafull, er tekin í fullu samráði við Gæsluna. Gæslan lagði fram víðtækar tillögur um það hvernig bregðast mætti við í rekstri. Niðurstaðan er sú, í samvinnu við yfirmann Landhelgisgæslunnar, að þessi aðgerð væri sársaukaminnst, ekki sársaukalaus, alls ekki, út frá þjóðaröryggi. (Forseti hringir.) Og að halda því síðan fram að það standi til að rýra þjóðaröryggismál (Forseti hringir.) í þessu samhengi er auðvitað alrangt. Það hefur komið fram í öllum mínum málflutningi að (Forseti hringir.) til stendur að tryggja einmitt það öryggi sem þessi vél hefur verið að veita í því millibilsástandi (Forseti hringir.) sem mun skapast. Og það er þegar hafin vinna við að vinna úr þeim málum í samvinnu við Landhelgisgæsluna.