Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:31]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því auðvitað mjög þegar fólk lýsir yfir dyggum stuðningi og hv. þingmenn lýsa yfir dyggum stuðningi við þessa tillögu. Varðandi auðlindastefnu þá er alveg hárrétt til getið hjá hv. þingmanni að þar erum við alveg sammála eins og reyndar mjög oft í mjög mörgum málum er varðar umhverfismál. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvað taki svona langan tíma. Þá vil ég nú kannski minna á það að í tíð fyrrum ráðherra, sem þá hét umhverfis- og auðlindaráðherra, sem var jú í tíð Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili, þá var lagt fram frumvarp sem átti að taka sérstaklega á vindorkunýtingunni, þ.e. með tillögum að breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Það kvað hins vegar ekki sérstaklega um auðlindagjaldið í sjálfu sér heldur það hvernig við skyldum standa að uppbyggingunni, þ.e. að horfa til rammaáætlunarferilsins sem þess verkfæris sem við þyrftum að beita þegar við værum að ákveða nýtingu á landi í þágu orkuvinnslu. Ég er enn þeirrar skoðunar að það sé mjög farsæl leið en bíð sannarlega tillagna starfshópsins og hlakka til að ræða þær.