Reiknireglur við úthlutun þingsæta

Tveimur reiknireglum hefur verið beitt við úthlutun þingsæta hérlendis. Nefnist önnur d'Hondt-regla og er kennd við höfund hennar, belgíska lögfræðinginn Victor d'Hondt (1841‒1901), en hin aðferðin ‒ regla stærstu leifar ‒ er nefnd Hare-aðferð þegar hún er kennd við höfund sinn, enska lögfræðinginn Thomas Hare (1806‒1891).

Reglunni sem kennd er við d'Hondt hefur verið beitt miklu lengur og oftar við úthlutun þingsæta hér á landi heldur en reglu stærstu leifar. Hún var fyrst notuð við úthlutun þingsæta eftir landskjör árið 1916 og hefur verið beitt í öllum þingkosningum síðan. Regla d'Hondts er auðveld í notkun en þar sem hún hyglir stórum flokkum nokkuð á kostnað hinna minni var hætt að beita henni við úthlutun kjördæmasæta frá og með alþingiskosningunum 1987 til og með alþingiskosningunum 1999 en reglan var þó á þessu tímabili notuð við úthlutun jöfnunarþingsæta.

Í dæminu hér á eftir er sýnd beiting d'Hondt-reglu við úthlutun þingsæta við hlutfallskosningu þar sem fjórir stjórnmálaflokkar buðu fram lista. Heildarfjöldi greiddra atkvæða var 10.000 og hlaut Gulur 4.000 atkvæði (40%), Rauður 3.000 (30%), Grænn 2.000 (20%) og Blár 1.000 (10%). Átta sæti voru til úthlutunar.

Niðurstaða fæst með því að deila með heiltölunum 1, 2, 3 … í þingsætatölu hvers framboðs þar til öllum átta sætunum hefur verið úthlutað. Sá flokkur sem hefur hæsta atkvæðatölu eftir hverja deilingu hlýtur sætið.

Úthlutun samkvæmt d'Hondt-reglu

Gulur Rauður Grænn Blár
Deilitala Atkvæði Sæti Atkvæði Sæti Atkvæði Sæti Atkvæði Sæti
1 4.000 1 3.000 2 2.000 3 1.000
2 2.000 4 1.500 5 1.000 500
3 1.333 6 1.000 7
4 1.000 8
Sæti alls 4 3 1 0

Reglu stærstu leifar var beitt við úthlutun kjördæmasæta í alþingiskosningum 1987, 1995 og 1999.

Útreikningur fer fram í tveimur hlutum þegar reglu stærstu leifar er beitt. Fyrst er fundið meðaltal atkvæða að baki hverju þingsæti og er það gert með því að deila í heildartölu gildra atkvæða með tölu þingsæta sem úthluta skal. Í dæminu sem hér er sýnt er heildarfjöldi atkvæða 10.000 og þingsætatalan átta, þ.e. 10.000/8 = 1.250. Þetta meðaltal er kvótinn sem uppfylla þarf til að hljóta þingsæti.

Þingsætum er úthlutað á grundvelli kvótatölunnar með því að draga hana frá heildarfjölda atkvæða hvers framboðs, svo lengi sem atkvæðin hrökkva til. Eftir að atkvæðamagn framboðanna dugir ekki lengur til að uppfylla kvótann, en enn eru eftir þingsæti til úthlutunar, ræður stærsta leif þeirra því hvaða framboð hlýtur þingsætin sem eftir eru. Fer það einfaldlega þannig fram að það framboð fær þingsætið sem á flest atkvæði eftir og kemst næst því að uppfylla kvótann.

Úthlutun samkvæmt reglu stærstu leifar

Gulur Rauður Grænn Blár
Atkvæði Sæti Atkvæði Sæti Atkvæði Sæti Atkvæði Sæti
4.000 3.000 2.000 1.000
–1.250 1 –1.250 2 –1.250 4 –1.250 7
2.750 1.750 750 –250
–1.250 3 –1.250 5 –1.250 8
1.500 500 –500
–1.250 6
250
Sæti alls 3 2 2 1