Kjördagar 1908–2021: Almennar alþingiskosningar og landskjör

Í alþingiskosningunum 1908 var í fyrsta skipti kosið á sama degi um land allt en áður hafði kjördagur verið ákvarðaður fyrir hvert og eitt kjördæmi og kosningar farið fram á mismunandi árstímum. Í töflunni hér á eftir eru taldir upp allir kjördagar í almennum alþingiskosningum frá 1908 og einnig í landskjöri sem fór fram fjórum sinnum, árin 1916, 1922, 1926 og 1930. Kosningar til Alþingis hafa tvisvar farið fram á fimmtudegi (1908 og 1926) og tvisvar á föstudegi (1931 og 1942). Kosið var á sunnudegi í landskjöri 1930 og í almennum þingkosningum 1933, 1934 og 1937. Frá og með haustkosningunum 1942 til og með kosningunum 1978 fóru alþingiskosningar fram á sunnudegi og alls var kosið til Alþingis á sunnudegi í 17 skipti frá 1908. Laugardagur hefur verið vinsælasti dagur vikunnar fyrir þingkosningar en 20 laugardagar hafa verið kjördagar frá 1908. Frá og með alþingiskosningunum sem fóru fram 23. apríl 1983 hefur kjördagur í alþingiskosningum ávallt verið á laugardegi.

Fjórum sinnum síðan 1908 hafa kjördagar í þingkosningum verið tveir, árin 1942, 1949, 1959 og 1979. Þessi ár var kosið að hausti og um vetur og kjördagar hafðir tveir til að draga úr líkum á að veður eða ófærð hindraði för kjósenda á kjörstað. Vorið 1983, þegar kosið var 23. apríl, brást dómsmálaráðherra við tvísýnu veðurútliti með því að setja daginn fyrir kosningarnar bráðabirgðalög nr. 49/1983 um breytingu á kosningalögum sem heimilaði að einnig yrði kosið 24. apríl. En þar sem hvorki veður né ófærð hömluðu því að kjósendur kæmust á kjörstað 23. apríl lauk kosningum þann dag og ekki var gripið til heimildarinnar í bráðabirgðalögunum.

Kjördagar frá 1908

Kjördagur Vikudagur
10. september 1908 fimmtudagur
28. október 1911 laugardagur
11. apríl 1914 laugardagur
5. ágúst 1916 – landskjör laugardagur
21. október 1916 laugardagur
15. nóvember 1919 laugardagur
8. júlí 1922 – landskjör laugardagur
27. október 1923 laugardagur
1. júlí 1926 – landskjör fimmtudagur
9. júlí 1927 laugardagur
15. júní 1930 – landskjör sunnudagur
12. júní 1931 föstudagur
16. júlí 1933 sunnudagur
24. júní 1934 sunnudagur
20. júní 1937 sunnudagur
5. júlí 1942 föstudagur
18. og 19. október 1942 sunnudagur, mánudagur
30. júní 1946 sunnudagur
23. og 24. október 1949 sunnudagur, mánudagur
28. júní 1953 sunnudagur
24. júní 1956 sunnudagur
28. júní 1959 sunnudagur
25.–26. október 1959 sunnudagur, mánudagur
9. júní 1963 sunnudagur
11. júní 1967 sunnudagur
13. júní 1971 sunnudagur
30. júní 1974 sunnudagur
25. júní 1978 sunnudagur
2.–3. desember 1979 sunnudagur, mánudagur
23. apríl 1983 laugardagur
25. apríl 1987 laugardagur
20. apríl 1991 laugardagur
8. apríl 1995 laugardagur
8. maí 1999 laugardagur
10. maí 2003 laugardagur
12. maí 2007 laugardagur
25. apríl 2009 laugardagur
27. apríl 2013 laugardagur
29. október 2016 laugardagur
28. október 2017 laugardagur
25. september 2021 laugardagur 

Kosningamánuðir 1908–2017

Mánuður Ár Heildarfjöldi
Janúar   0
Febrúar   0
Mars   0
Apríl 1914, 1983, 1987, 1991, 1995, 2009, 2013 7
Maí 1999, 2003, 2007 3
Júní 1930 (landskjör), 1931, 1934, 1937, 1946, 1953, 1956, 1959, 1963, 1967, 1971, 1974, 1978 13
Júlí 1922 (landskjör), 1926 (landskjör), 1927, 1933, 1942 5
Ágúst 1916 (landskjör) 1
September 1908, 2021 2
Október 1911, 1916, 1923, 1942, 1949, 1959, 2016, 2017 8
Nóvember 1919 1
Desember 1979 1

Eins og vænta má, þegar litið er til hnattstöðu Íslands og veðurfars, hefur verið forðast að láta þingkosningar fara fram að vetrarlagi. Alþingiskosningar hafa aldrei farið fram í janúar, febrúar og mars og aðeins einu sinni í nóvember og desember frá árinu 1908 þegar tekinn var upp sá háttur að hafa sama kjördag um allt land. Einu sinni var kosið í ágúst og tvisvar í september á árabilinu 1908–2021.

Þegar landskjörin eru talin með hafa alþingiskosningar farið fram í 41 skipti frá 1908. Júní hefur verið vinsælasti kosningamánuðurinn en 13 þingkosningar hafa farið fram í þeim mánuði, þar af eitt landskjör. Október kemur næstur með átta kosningar og því næst apríl með sjö alþingiskosningar.