Alþingiskosningar 1934

Nýjar reglur giltu um kjördæmaskipan, kosningaaldur og skilyrði fyrir kosningarrétti í þessum alþingiskosningum, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 22/1934, um breyting á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, og lög um kosningar til Alþingis, nr. 18/1934, sem hvor tveggja höfðu verið samþykkt á aukaþingi að afloknum kosningum sumarið 1933.

Aldurstakmark við alþingiskosningar varð nú 21 ár í stað 25 ára áður og afnumin voru efnahagsleg skilyrði fyrir kosningarrétti. Eftir breytinguna voru skilyrðin þau að kjósandi hefði íslenskan ríkisborgararétt, hefði verið búsettur í landinu í fimm ár á kosningadegi, hefði óflekkað mannorð og væri fjárráða.

Landskjör var nú aflagt og innleitt kjör 11 jöfnunarmanna sem kosnir voru hlutfallskosningu. Ekki komu önnur framboð til greina við úthlutun jöfnunarþingsæta en þau sem höfðu fengið a.m.k. einn kjördæmakjörinn þingmann.

Kjördæmaskipan varð þannig að einmenningskjördæmi voru 20 en tvímenningskjördæmi sex. Þá var 11 þingsætum úthlutað eftir kjörfylgi þeirra flokka sem höfðu fengið fulltrúa kjörinn á Alþingi. Markmiðið með þessu var að þingstyrkur stjórnmálaflokkanna endurspeglaði kjörfylgi þeirra betur en áður hafði verið.

Í þessum kosningum var heimilt að bjóða fram landslista í öllum kjördæmum sem ætlað var að höfða til þeirra kjósenda sem vildu greiða tilteknum stjórnmálaflokki atkvæði sitt en vildu ekki kjósa frambjóðendur hans í kjördæminu. Þessi nýbreytni sló ekki í gegn hjá kjósendum, aðeins 2,8% gildra atkvæða féllu á landslista.

Sex stjórnmálasamtök buðu fram við þingkosningarnar sumarið 1934: Alþýðuflokkur, Bændaflokkur, Framsóknarflokkur, Kommúnistaflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Þjóðernissinnar. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram í öllum kjördæmum landsins.

Um kosningarnar
Kjördagur 24. júní 1934
Mannfjöldi 113.366
Kjósendur á kjörskrá 64.338
Hlutfall kosningarbærra af heildarmannfjölda 56,4%
Greidd atkvæði 52.444
Kosningaþátttaka 81,5%
Hlutfall kjósenda af heildarmannfjölda 46,3%
Kosningaþátttaka karla 88,2%
Kosningaþátttaka kvenna 75,3%
Kjördæmakjörnir þingmenn 38
Jöfnunarþingmenn 11
Heildarfjöldi þingmanna 49
Kosningaúrslit
Gild atkvæði 51.929
Sjálfstæðisflokkur   42,3%  20 þingmenn
Framsóknarflokkur   21,9%  15 þingmenn
Alþýðuflokkur 21,7% 10 þingmenn
Bændaflokkur
6,4% 3 þingmenn
Kommúnistaflokkur 6,0%
Þjóðernissinnar  0,7%  
Utan flokka     1,0%   1 þingmaður
Jöfnunarþingmenn
Sjálfstæðisflokkur   5
Alþýðuflokkur 4
Bændaflokkur 2
Kjördæmi og þingmenn 1934
Einmenningskjördæmi
Borgarfjarðarsýsla 1
Mýrasýsla 1
Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 1
Dalasýsla 1
Barðastrandarsýsla 1
Vestur-Ísafjarðarsýsla 1
Ísafjarðarkaupstaður 1
Norður-Ísafjarðarsýsla 1
Strandasýsla 1
Vestur-Húnavatnssýsla 1
Austur-Húnavatnssýsla 1
Akureyrarkaupstaður 1
Suður-Þingeyjarsýsla 1
Norður-Þingeyjarsýsla 1
Seyðisfjarðarkaupstaður 1
Austur-Skaftafellssýsla 1
Vestur-Skaftafellssýsla 1
Vestmannaeyjakaupstaður 1
Hafnarfjarðarkaupstaður 1
Gullbringu- og Kjósarsýsla 1
Tvímenningskjördæmi
Skagafjarðarsýsla 2
Eyjafjarðarsýsla og Siglufjarðarkaupstaður 2
Norður-Múlasýsla 2
Suður-Múlasýsla og Neskaupstaður 2
Rangárvallasýsla 2
Árnessýsla 2
Kjördæmi með hlutfallskosningu
Reykjavík 6