Alþingiskosningar 1916 – almennar þingkosningar

Konur kusu nú í fyrsta skipti til Alþingis í almennum þingkosningum en aldurstakmark kosningarréttar þeirra var 39 ár og sama gilti um þá karla sem voru vinnuhjú og höfðu öðlast kosningarrétt um leið og konurnar. Fyrr á árinu höfðu konur og vinnumenn getað tekið þátt í landskjöri.

Efnahagsleg skilyrði fyrir kosningarrétti höfðu einnig verið rýmkuð með stjórnarskrárbreytingunni 1915 þegar afnumið var að ekki hefðu aðrir kosningarrétt en þeir sem greiddu svonefnt aukaútsvar.

Konungkjör þingmanna var úr sögunni. Í stað konungkjörinna þingmanna komu sex landskjörnir þingmenn sem kosnir voru hlutfallskosningu. Landið myndaði eitt kjördæmi við landskjör. Landskjörnir þingmenn áttu sæti í efri deild Alþingis. Landskjör (hlutbundnar landskosningar) fóru fram 5. ágúst 1916. Voru þá kjörnir sex þingmenn og jafn margir varamenn þeirra.

Nú var í fyrsta sinn heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar samkvæmt lögum nr. 47/1914.

Flokkakerfi var enn á mótunarstigi þegar kosið var til Alþingis haustið 1916 og voru sumir frambjóðendur utan flokka en nokkuð óljóst um aðra hvaða flokki þeir tilheyrðu í raun. Einn flokkanna, Sjálfstæðisflokkurinn, hafði klofnað um afstöðu til ríkisstjórnarinnar. Voru þeir frambjóðendur flokksins sem studdu stjórnina kallaðir „langsum“ en stjórnarandstæðingar „þversum“. Þriðji hluti flokksmanna tók ekki afstöðu í málinu. Af þessum sökum voru þingmenn sem kosnir voru á þing í nafni Sjálfstæðisflokksins árið 1916 taldir í þremur flokkum í kosningaskýrslum. Auk Sjálfstæðisflokkanna þriggja gátu kjósendur valið um Alþýðuflokk, Bændaflokk, Heimastjórnarflokk, Óháða bændur og einnig frambjóðendur utan stjórnmálaflokka.

Um kosningarnar
Kjördagur 21. október 1916
Mannfjöldi 89.059
Kjósendur á kjörskrá 28.529
Hlutfall kosningarbærra af heildarmannfjölda 37,7%
Greidd atkvæði 14.030
Kosningaþátttaka 52,6%
Hlutfall kjósenda af heildarmannfjölda 15,7%
Kosningaþátttaka karla 69,1%
Kosningaþátttaka kvenna 30,2%
Kjördæmakjörnir þingmenn 34
Landskjörnir þingmenn 6
Heildarfjöldi þingmanna 40
Kosningaúrslit – kjördæmakjörnir þingmenn
Gild atkvæði 13.350
Heimastjórnarflokkur  40,0%  12 þingmenn
Sjálfstæðisflokkur „langsum“  15,7%  7 þingmenn
Bændaflokkur  8,8% 5 þingmenn
Sjálfstæðisflokkur 7,6% 3 þingmenn
Sjálfstæðisflokkur „þversum“  7,0%  3 þingmenn
Alþýðuflokkur  6,8%  1 þingmaður
Óháðir bændur  4,1%  1 þingmaður
Utan flokka  10,0%  2 þingmenn
Kjördæmi og þingmenn 1916
Reykjavík 2
Gullbringu- og Kjósarsýsla 2
Árnessýsla 2
Rangárvallasýsla 2
Vestmannaeyjasýsla 1
Vestur-Skaftafellssýsla 1
Austur-Skaftafellssýsla 1
Suður-Múlasýsla 2
Seyðisfjarðarkaupstaður 1
Norður-Múlasýsla 2
Norður-Þingeyjarsýsla 1
Suður-Þingeyjarsýsla 1
Eyjafjarðarsýsla 2
Akureyri 1
Skagafjarðarsýsla 2
Húnavatnssýsla 2
Strandasýsla 1
Norður-Ísafjarðarsýsla 1
Ísafjarðarkaupstaður 1
Vestur-Ísafjarðarsýsla 1
Barðastrandarsýsla 1
Dalasýsla 1
Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 1
Mýrasýsla 1
Borgarfjarðarsýsla 1