Alþingiskosningar 1916 – landskjör

Konungkjör þingmanna var afnumið með stjórnarskrárbreytingunni sem tók gildi 19. júní 1915. Upp frá því hafa einungis þjóðkjörnir fulltrúar átt sæti á Alþingi. Í stað konungkjörnu þingmannanna komu sex þingmenn og jafnmargir varamenn sem kjörnir skyldu í hlutbundnum kosningum þar sem landið allt væri eitt kjördæmi. Kjörtímabil landskjörinna þingmanna var 12 ár en helmingur þeirra skyldi þó hverfa af þingi sjötta hvert ár. Á Alþingi árið 1917 var gert út um það með hlutkesti hvaða þrír þingmenn úr hópi hinna landskjörnu þingmanna skyldu hverfa af þingi eftir sex ára þingsetu. Allir landskjörnu þingmennirnir áttu sæti í efri deild þingsins.

Aldurstakmark kosningarréttar í landskjöri var 35 ár. Aldurstakmark kvenna og vinnuhjúa, sem fengið höfðu kosningarrétt 19. júní 1915, var þó 39 ár. Konur höfðu nú í fyrsta skipti rétt til að greiða atkvæði í kosningum til Alþingis. Samkvæmt 10. grein stjórnskipunarlaga, nr. 12/1915, miðaðist kosningarréttur kvenna og vinnuhjúa við 40 ár þegar lögin voru sett en árlega lækkaði aldursmarkið um eitt ár og því gilti 39 ára aldurstakmark fyrir konur og vinnuhjú í þingkosningunum árið 1916.

Kjósendur gátu valið um sex framboðslista: Alþýðuflokk, Bændaflokk, Heimastjórnarflokk, Óháða bændur, Sjálfstæðisflokk „langsum“ og Sjálfstæðisflokk „þversum“.

Um kosningarnar
Kjördagur 5. ágúst 1916
Mannfjöldi 89.059
Kjósendur á kjörskrá 24.189
Hlutfall kosningarbærra af heildarmannfjölda 27,0%
Greidd atkvæði 5.873
Kosningaþátttaka 24,3%
Hlutfall kjósenda af heildarmannfjölda 6,6%
Kosningaþátttaka karla 38,1%
Kosningaþátttaka kvenna 10,3%
Kjörnir þingmenn 6
Kosningaúrslit – landskjörnir þingmenn
Gild atkvæði 5.829
Heimastjórnarflokkurinn 33,5%  3 þingmenn
Sjálfstæðisflokkur „þversum“  22,9% 2 þingmenn
Óháðir bændur  22,1%  1 þingmaður
Bændaflokkur  7,5%  
Sjálfstæðisflokkur „langsum“  7,2%  
Alþýðuflokkur  6,8%