Kosningarréttur, kjörgengi og kjörsókn

Kosningarréttur og kosningaraldur

Meðal þess sem hugtakið „lýðræði“ felur í sér er að ákvörðunarvald um sameiginleg málefni samfélagsins liggur hjá þeim hluta borgaranna í því sama samfélagi sem hafa rétt til að taka þátt í ákvarðanatökunni. Kosningarréttur veitir þeim sem hann hafa rétt til að taka þátt í því að velja fulltrúa til starfa á Alþingi og er því mjög mikilvægur þáttur lýðræðisskipulagsins.

Án tillits til þess hvort framkvæmd lýðræðisins felst í fulltrúalýðræði eða beinu lýðræði gefur hlutfall kosningarréttarhafa vísbendingu um það hversu útbreitt lýðræðisskipulagið er í því samfélagi sem hlutfallstölurnar eiga við um. Eins og gefur að skilja eru hlutfallstölurnar marklausar nema aðrir þættir lýðræðisskipulagsins en kosningarrétturinn séu virkir. Hátt hlutfall kosningarréttarhafa í einræðisríkjum er til dæmis ekki vitnisburður um áhrif almennings í þeim ríkjum á stjórnarfarið og á ekki vitund skylt við lýðræði.

Fram til þess að Íslendingar öðluðust fullveldi og löggjafarvald Alþingis varð óskert hafði kosningarréttur í þingkosningum aðra þýðingu en eftir þessa grundvallarbreytingu. Þingmenn á ráðgjafarþinginu gátu aðeins látið álit sitt í ljós, löggjafarvald höfðu þeir ekki. Á árabilinu 1874–1918 var löggjafarvald Alþingis skert þar sem það gat ekki sett lög um sameiginleg mál Íslands og danska ríkisins og valdsvið og umboð hinna kjörnu fulltrúa takmarkaðist af því. Frá 1918 hefur Alþingi haft óskorað löggjafarvald og umboðið sem kjósendur veita þingmönnum hefur að sama skapi vegið þyngra eftir 1918 en það gerði áður.

Innleiðing þingræðis á Íslandi árið 1904 hafði einnig veruleg áhrif á þýðingu kosningarréttar. Það fór saman að íslensk ríkisstjórn tók til starfa og að innleitt var þingræði. Síðan hefur ríkisstjórn Íslands ekki verið sætt nema hún njóti stuðnings eða hlutleysis meiri hluta hinna kjörnu fulltrúa á Alþingi. Frá því um 1870 og fram til 1901 sat í Danmörku ríkisstjórn sem einnig fór með ríkisstjórnarvald á Íslandi og naut hún ekki stuðnings meiri hluta danska löggjafarþingsins. Meðan svo stóð voru áhrif kjósenda á störf framkvæmdarvaldsins lítil sem engin og innleiðing þingræðisskipulagsins jók því gildi kosningarréttarins verulega.

Lýðræðisskipulagið spratt ekki fram fullmótað hér á landi fremur en í öðrum ríkjum sem nú búa við lýðræðislega stjórnarhætti. Þessa sér stað í útbreiðsluþróun kosningarréttarins. Í upphafi höfðu hann einungis fáir í krafti eigna sinna en nú er kosningarréttur skýlaus réttur allra fulltíða ríkisborgara.

Talið er að einungis rúm 2% landsmanna hafi haft kosningarrétt þegar fyrst var kosið til Alþingis árið 1844 og í fyrstu kosningunum til Alþingis með takmarkað löggjafarvald árið 1874 var hlutfallið 8,8% og það hélst innan við 10% þar til í kosningunum 1908 að það fór upp í 14,1%.

Allar breytingar sem gerðar hafa verið á skilyrðum kosningarréttar hér á landi frá upphafi hafa falist í tilslökunum. Í fyrstu höfðu einungis betur megandi karlar kosningarrétt en smám saman var slakað á kröfum um efnahag kjósenda og stéttarstöðu þar til þær höfðu allar verið felldar niður í þingkosningunum 1934. Kynbundnum hömlum á kosningarrétti var aflétt í tveimur áföngum hér á landi. Konur gátu fyrst kosið í alþingiskosningum árið 1916 með ströngu skilyrði um aldur. Í kosningunum 1923 var kosningarréttur þeirra háður sömu skilyrðum og kosningarréttur karla og hefur svo verið síðan.

Kosningaaldur í þingkosningum var 25 ár frá 1843 þar til í alþingiskosningunum 1934 að hann var færður í 21 ár, síðan í 20 ár 1968 og var 18 ár þegar kosið var árið 1987 og hefur verið óbreyttur síðan. Þá voru einnig felld niður skilyrði um lögræði og óflekkað mannorð. Kosningarréttur kvenna og vinnuhjúa, sem þeim var veittur árið 1915, var bundinn við 40 ár og lækkaði aldurstakmarkið um eitt ár árlega. Þetta aldurstakmark, sem þá var 39 ár, átti við í tvennum kosningum árið 1916, landskjöri og almennum alþingiskosningum, en það ár höfðu íslenskar konur í fyrsta skipti atkvæðisrétt í alþingiskosningum.

Kosningaaldur í landskjöri, sem fór fram fjórum sinnum á árabilinu 1919–1930, var 35 ár.

Kjörgengi

Hugtakið „kjörgengi“ í alþingiskosningum felur í sér þau skilyrði sem uppfylla þarf til að geta boðið sig fram í þingkosningum og tekið sæti á Alþingi ef kosningaúrslit leyfa. Færa má rök fyrir því að það sé mikilvægt fyrir lýðræðið að sem minnstar takmarkanir séu á kjörgengi.

Nú eru allir einstaklingar sem hafa kosningarrétt í alþingiskosningum og óflekkað mannorð kjörgengir nema hæstaréttardómarar.

Hugtakið „óflekkað mannorð“ er skilgreint í 3. mgr. 6. gr. kosningalaga, nr. 112/2021, og þar segir: „Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem hlotið hefur dóm fyrir refsivert brot og refsing er óskilorðsbundið fangelsi, frá þeim degi þegar dómur er upp kveðinn og þar til afplánun er að fullu lokið.“ Þetta þýðir að einstaklingur sem hefur hlotið óskilorðsbundinn fangelsisdóm er ekki kjörgengur fyrr en hann hefur að fullu afplánað dóminn.

Rétt eins og skilyrði fyrir kosningarrétti hafa kjörgengisskilyrði rýmkað verulega frá því að fyrst var kosið til Alþingis. Þá var ekki öðrum gefinn kostur á að bjóða sig fram til starfa á Alþingi en körlum sem áttu verðmæta fasteign eða höfðu rétt til afnota af slíkri eign. Fyrsta breytingin sem gerð var á kjörgengisskilyrðum, árið 1857, fól það í sér að slakað var á þeim með því að afnema kröfuna um eignarhald eða afnotarétt á fasteign. Efnahagsleg skilyrði hurfu þó ekki þar sem þess var áfram krafist að sá sem hugðist bjóða sig fram við þingkosningar greiddi skatta og enginn gat boðið sig fram sem hafði fengið sveitarstyrk og ekki getað endurgreitt hann.

Skilyrði fyrir kosningarrétti og kjörgengi hafa ávallt verið nátengd og þegar dregið var úr skilyrðum fyrir kosningarrétti var einnig dregið úr skilyrðum fyrir kjörgengi.

Það á við um hvort tveggja, kosningarrétt og kjörgengi, að kyn og efnahagur voru ráðandi þættir framan af. Formlegar kynbundnar hindranir fyrir kjörgengi kvenna voru afnumdar í tveimur áföngum árin 1915 og 1920. Við fyrri breytinguna fengu fertugar konur og eldri kjörgengi og við hina síðari allar konur sem náð höfðu 25 ára aldri.

Kjörgengisaldur var lækkaður í 21 ár árið 1934, varð 20 ár árið 1967 og 18 ár árið 1984.

Kjörgengisaldur í landskjöri var 35 ár.

Kjörsókn

Fram til alþingiskosninganna 1902 var hlutfall þeirra sem neyttu kosningarréttar alltaf undir 50% en þetta ár varð það 52,6%. Meðal þess sem skýrt getur hvers vegna kjörsókn var ekki meiri er að einungis einn kjörstaður var í hverju kjördæmi og gátu því kjósendur þurft að fara um langan veg á kjörstað.

Kjörsókn jókst mjög í alþingiskosningunum 1908, varð þá 75,7% en hafði verið 53,4% þegar þingkosningar fóru fram árið 1903. Í kosningunum 1908 hafði kjörstöðum verið fjölgað til muna og var einn slíkur í hverjum hreppi. Varð þá miklu hægara um vik fyrir kjósendur að komast á kjörstað og einnig hafði það vafalaust áhrif á kjörsóknina að atkvæðagreiðslan var þá leynileg í fyrsta skipti þannig að hver og einn kjósandi greiddi atkvæði í einrúmi. Áður hafði atkvæðagreiðsla verið munnleg og vissu þá allir sem á kjörfundi voru samstundis hvaða frambjóðanda hver kjósandi hafði kosið.

Eftir að konur og vinnuhjú hlutu kosningarrétt árið 1915 lækkaði hlutfall þeirra sem neyttu kosningarréttar í kosningum ársins 1916 talsvert frá því sem verið hafði sökum þess að konurnar nýttu sér ekki kosningarréttinn til jafns við karla en kjörsókn kvenna var 30,2% í kosningunum 1916 og 39,1% í kosningunum 1919.

Þótt enn væri allmikill munur á kjörsókn karla og kvenna í þingkosningunum 1923, þegar kynbundin mismunun vegna kosningarréttar hafði verið afnumin, varð heildarkjörsókn þá 75,6%.

Kjörsókn var yfir 90% í öllum þingkosningum frá og með 1956 til og með 1978. Í síðustu kosningum hefur kjörsókn dalað nokkuð frá því að hún var mest. Í kosningunum 2016 greiddu 79,2% kosningarréttarhafa atkvæði og árið 2017 var þetta hlutfall 81,2%.

Konur gátu í fyrsta skipti kosið í þingkosningum árið 1916, en einungis þær sem höfðu náð 39 ára aldri og uppfylltu ýmis önnur skilyrði og hið sama átti við um vinnuhjú. Almennur kosningarréttur karla, sem ekki voru vistráðnir hjá öðrum, var þá bundinn við 25 ára aldur. Þegar konur tóku í fyrsta skipti þátt í alþingiskosningum með sömu skilyrðum og karlar, 27. október 1923, var verulegur munur á kjörsókn kynjanna; 83,7% karla gengu að kjörborði en 68,4% kvenna og munurinn var 38,9%. Þessi munur fór minnkandi næstu áratugi og var orðinn 3,9% árið 1963, en ávallt neytti þó lægra hlutfall kvenna en karla kosningarréttar þar til í alþingiskosningunum árið 1995. Þá var hlutfall kjósenda úr hópi kvenna lítið eitt hærra en hlutfall karla og hefur svo verið síðan.  

Kjorsokn-fra-1874

Kjorsokn-karla-og-kvenna-fra-1916