Bænaskrár

Íslenskar konur höfðu hvorki kosningarrétt né kjörgengi við endurreisn Alþingis árið 1845. Það er ekki fyrr en upp úr miðri 19. öld að þeirri skoðun vex fylgi á Vesturlöndum að konur eigi að hafa sama rétt og karlar til kosninga þjóðþinga. Konur fengu fyrst kosningarrétt árið 1893 á Nýja-Sjálandi, sem þá var nýlenda Breta, og Finnland varð fyrsta Evrópulandið til að veita konum kosningarrétt árið 1907. Með vaxandi þjóðmálaáhuga á síðari hluta 19. aldar voru ýmis réttindamál almennings tekin til umræðu og þar á meðal staða kvenna í samfélaginu.

Þingmenn og Landshöfðingi í Alþingisgarðinum 1894

©Þjóðminjasafn Íslands/Sigfús Eymundsson

Áskoranir til Alþingis

Árið 1885 barst Alþingi áskorun frá almennum héraðsfundi sem haldinn var á Einarsstöðum í Reykjadal þar sem ályktað var að allir, konur sem karlar, sem ekki væru öðrum háðir sem vistráðin hjú, hefðu óflekkað mannorð og væru 20 ára að aldri, hefðu kosningarrétt til Alþingis. Á næstu árum bárust Alþingi margar ályktanir frá fundum vítt og breitt um landið þar sem krafist var aukinna réttinda kvenna, einkum kosningarréttar. Þá stóð Hið íslenska kvenfélag fyrir undirskriftasöfnunum til stuðnings almennum kosningarrétti kvenna og árið 1907 söfnuðust undirskriftir á tólfta þúsund kvenna og kvenfélaga alls staðar að af landinu. Það var rúmur helmingur allra kvenna á kosningaraldri á landinu, þ.e. 25 ára og eldri.

Áskorun kvenna til Alþingis árið 1895

Hjer með leyfum vjer undirskrifaðar konur oss að skora á alþingi, að það, þrátt fyrir    synjun stjórnarinnar á lagafrumvarpi um kjörgengi kvenna í hreppsnefndir o. s. frv., samþykki frumvarp þetta á næsta alþingi og áfram, þangað til það nær staðfestingu. Þá æskjum vjer og þess, að hinir háttvirtu þingmenn samþykki rjettindakröfur þær oss til handa, er frumvarp það fer fram á, sem ekki varð fullrætt á alþingi 1893, um fjárráð giptra kvenna o. fl.

Um leið og vjer þakksamlega viðurkennum rjettindi þau, er alþingi þegar hefur veitt oss, berum vjer það traust til þess, að það framvegis eptir atvikum veiti oss allt jafnrjetti við karlmenn, samkvæmt tímans vaxandi menningar- og frelsiskröfum.

Skoða undirskriftir


Áskoranir kvenna og kvenfélaga til Alþingis 1907

Vér undirritaðar konur í ………..hreppi í ………….sýslu leyfum oss hér með

virðingarfylst að skora á hið háttvirta alþingi Íslendinga að hlutast til um, að konum, jafnt giftum sem ógiftum, verði veittur kosningarréttur og kjörgengi til alþingis, ef þær fullnægja sömu skilyrðum, sem sett eru, að því er karlmenn snertir. Enn fremur leyfum vér oss að skora á þingið, að sjá um að kvenmenn njóti sama styrks sem karlmenn á mentastofnunum landsins, hafi sama rétt til embætta og opinberra sýslana og njóti að öðru leyti fylsta jafnréttis við karlmenn.

Skoða undirskriftir

Áskoranir frá konum til Alþingis 1913

Vér undirritaðar íslenzkar konur lítum svo á, sem nú séu þeir tímar, að hin íslenzka þjóð þurfi á öllum kröftum sínum að halda, til þess að vinna að sínum mörgu velferðar- og menningarmálum, og að mjög óhyggilegt væri og skaðlegt að binda þá hluttöku við kynferði eða stéttir. Vér lítum svo á, sem öll mál þjóðfélags vors snerti oss jafnmikið og bræður vora, og að eins og vér á heimilunum stöndum við hlið karlmannanna og ráðum sameiginlega þar uppeldi barna vorra og öðrum velferðarmálum heimilisins, eins eigum vér rétt og skyldu til að stand við hlið þeirra, þegar ráða skal með lögum velferðarmálum þjóðarinnar í heild sinni. Ekkert þeirra mála er oss óviðkomandi, því öll snerta þau oss sjálfar, börn vor, eiginmenn, foreldra, systkini, frændur og vini, þjóð og ættjörð, sem vér elskum eins og þeir og óskum að verða að sem mestu liði. En alt til þessa hefir oss konum verið með lögum bannað að taka þátt í löggjöf lands vors og þjóðar. Og þrátt fyrir það, þótt oss hafi verið gert að skyldu að greiða alla skatta til þjóðfélagsins hlutfallslega á við karlmenn, þá höfum vér ekkert atkvæði um það, hvort vér viljum bera þessi gjöld, eða hvernig því fé skuli varið. Jafnvel um þau lög, sem snerta oss allar sem kyn, eða stétt, atvinnu vora, ellegar börn vor og heimili ₋ um þau mál höfum vér ekkert atkvæði né um það, hverir skuli með þau fara. ₋ Vér leyfum oss því hér með virðingarfylst að skora á Alþingi Íslendinga að breyta á næsta þingi stjórnarskipunarlögum Íslands á þann hátt, að íslenzkum konum verði með þeim veittur fullkominn stjórnarfarslegur kosningarréttur og kjörgengi, með sömu skilyrðum og íslenzkum karlmönnum.

Skoða undirskriftir

Thorvaldsenkonur í Alþingsgarðinum 1896.

©Þjóðminjasafn Íslands.