Höggmynd Af Ingibjörgu H. Bjarnason

Höggmyndin (styttan) af Ingibjörgu H. Bjarnason afhjúpuð framan við Skálann, viðbyggingu Alþingishússins, 19. júní 2015, á hátíðarsamkomu þegar 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna var fagnað.

Stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason afhjúpuð 19. júní 2015.

©Bragi Þór Jósefsson

Þegar arkitektastofan Batteríið teiknaði Skálann var gert ráð fyrir styttu fyrir utan þar sem minnismerkið um Ingibjörgu er nú. Myndhöggvarinn er Ragnhildur Stefánsdóttir og var frummyndin unnin í gifs á vinnustofu Ragnhildar frá ágúst 2014 til mars 2015. Hún var svo steypt í brons og patíneruð á bronsverkstæðinu Kunstgießerei Kollinger GmbH í Elchingen í Þýskalandi. 

Styttan er 198 sm á hæð. Stöpullinn er steyptur úr svartri steinsteypu. Hann er 260 sm hár, 150x150 sm efst og 75x75 sm neðst. Stöpullinn er 11 tonn að þyngd. Steinninn sem gengur í gegnum stöpulinn er úr grágrýti. Hann er 360 sm á hæð, 45 sm á breidd og 18 sm á þykkt. Steypt hjá BM Vallá. Samtals er stytta og stöpull um 15 tonn að þyngd, þar af er styttan um 450 kg. Þór Sigmundsson steinsmiður hjá Steinkompaníinu gerði steininn sem Ingibjörg tyllir fingri á. Á steininn er áletrun um Ingibjörgu. 

Styttur af Ingibjörgu H. Bjarnason og Jóni Sigurðssyni

Hugmynd listamannsins er að stöpullinn og verkið af Ingibjörgu kallist á við 100 ára gamalt verk af Jóni Sigurðssyni. Stöplarnir spegla hvor annan – kvenform og karlform. Stöpull Jóns er pýramídaform, lokað og karllægt, tákn um stigveldi, en þegar pýramídanum er snúið við verður hann opið form og kvenlægt, tákn um valddreifingu. Þó að Ingibjörg standi ein á sínum stöpli komast þó fleiri fyrir. Hún hefur ásamt mörgum öðrum konum leitt baráttuna fyrir konur. Hún var fyrst kvenna kjörin á þing. Hún var brautryðjandi rétt eins og Jón. Listamaðurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að stöplar Ingibjargar og Jóns kallist á. Formin speglast og Ingibjörg og Jón líta líka hvort til annars.