Kosningaréttur - þingmál og umræður

Allt frá árinu 1885 voru lögð fram frumvörp á Alþingi sem vörðuðu kosningarrétt kvenna í alþingiskosningum sem ekki náðu fram að ganga. Árið 1885 var lagt fram  frumvarp sem gerði ráð fyrir að ekkjur og ógiftar konur sem stæðu fyrir búi fengju kosningarrétt til Alþingis en málinu var vísað frá. Árið 1893 samþykkti Alþingi lög um breytingar á stjórnarskránni þar sem m.a. var ákvæði um að veita mætti konum kosningarrétt og kjörgengi með lögum en konungur neitaði að staðfesta lögin. Árið 1901 felldi Alþingi frumvarp þar sem einnig var gert var ráð fyrir að heimila mætti með lögum að veita konum kosningarrétt. Það var ekki fyrr en á þinginu 1907 sem lagt var fram frumvarp til breytinga á stjórnarskipunarlögum sem gerði ráð fyrir kosningarrétti og kjörgengi kvenna til Alþingis en það varð ekki útrætt. Í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga 1909 er gert ráð fyrir að með lögum megi veita konum kjörgengi, málið var ekki útrætt en í nefndaráliti er gerð tillaga til landsstjórnar um að leggja fyrir næsta þing frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingar um sérstök málefni Íslands, m.a. að konum verði veittur kosningarréttur og kjörgengi til Alþingis.

Stjórnarskrárbreytingar 1911–1915

Árið 1911 afgreiddi Alþingi stjórnarskrárbreytingu þar sem var ákvæði um jafnan kosningarrétt karla og kvenna til Alþingis. Þar sem samþykki tveggja þinga þarf til breytinga á stjórnarskrá var frumvarpið flutt á ný á þinginu 1912 en það hlaut ekki afgreiðslu.

Stjórnarskrárfrumvarpið var lagt fram að nýju á Alþingi árið 1913 en í meðferð þingsins var gerð sú breyting að sett var inn ákvæði um 40 ára aldurstakmark kvenna sem átti að lækka um eitt ár á ári hverju þar til kosningarréttur þeirra yrði jafn kosningarrétti karla, þ.e. 25 ár.

Frumvarpið svo breytt var samþykkt 1913 og lagt þannig fyrir aukaþing 1914 og var stjórnarskrárbreytingin endanlega samþykkt 12. ágúst það ár.

  • Staðfesting laganna 19. júní 1915

Hinn 19. júní 1915 undirritaði Kristján X. Danakonungur lögin sem veittu konum, 40 ára og eldri, kosningarrétt og gátu þær nýtt þann rétt í fyrsta sinn í alþingiskosningum sem fóru fram árið 1916. Árið 1920 var stjórnarskránni breytt og þá varð kosningarréttur karla og kvenna jafn.

Fleiri mál um réttindi kvenna frá 1885–1911 

Á sama tíma og breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um kosningarrétt kvenna voru  til umfjöllunar á Alþingi voru fleiri mál um réttindi kvenna lögð fram og rædd. Árið 1911 var lagt fram og samþykkt á Alþingi frumvarp til laga um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta

Fleiri mál um réttindi kvenna, frá 1885


Þingmenn í þingsal um 1911

©Þjóðminjasafn Íslands.