Skrifstofustjórar Alþingis

Á ráðgjafarþingunum 1845-1873 voru ekki skrifstofustjórar en forsetar Alþingis höfðu sérstaka skrifara sér til aðstoðar. Á löggjafarþingunum frá og með 1875 fram til 1915 var ráðinn skrifstofustjóri fyrir hvert þing. Með lögum um þingsköp Alþingis árið 1915 var starf skrifstofustjóra gert að föstu starfi, veittu til sex ára í senn. Í launalögum 1919 var það gert að föstu embætti.

Sérstakir skrifarar forseta á ráðgjafarþingunum eru taldir hér á eftir, síðan skrifstofustjórar í tímaröð. Margir þeirra sátu síðar á Alþingi eða Þjóðfundinum og vísast til æviatriða þeirra sem slíkra hér að framan.

Jens Sigurðsson,
rektor og þjóðfundarmaður. Skrifari forseta 1845.

Þórarinn Böðvarsson,
prestur og alþingismaður. Skrifari forseta 1847.

Hans Theodór Thorstensen,
guðfræðinemi. F. í Nesi við Seltjörn 22. sept. 1831. d. 9. júní 1860. For.: Jón Thorstensen landlæknir og alþingismaður og k. h. Elín Thorstensen húsmóðir. Skrifari forseta 1849.

Sigurður Melsteð,
lektor og alþingismaður. Skrifari forseta Þjóðfundarins 1851.

Jón Jakobsson,
prestur. F. í Múla í Biskupstungum 12. maí 1834, d. 19. jan. 1873. For.: Jakob Finnbogason prestur og 1. k. h. Sigríður Egilsdóttir húsmóðir. K. Helga Magnúsdóttir húsmóðir. Skrifari forseta 1853 og 1857-1859.

Stefán Stephensen,
prestur. F. í Holti undir Eyjafjöllum 20. jan. 1832, d. 10. mars 1922. For.: Stefán Stephensen prestur og k. h. Guðrún Stephensen húsmóðir. K. Sigríður Stephensen húsmóðir. Skrifari forseta 1855.

Þorvaldur Jónsson,
læknir. F. á Kirkjubæjarklaustri 3. sept. 1837, d. 24. júlí 1916. For.: Jón Guðmundsson sýslumaður, síðar ritstjóri og alþingismaður og k. h. Hólmfríður Þorvaldsdóttir húsmóðir. K. Þórunn Jónsdóttir húsmóðir. Skrifari forseta 1861-1863.

Páll Melsteð,
sagnfræðingur og alþingismaður. Skrifari forseta 1865-1873.

Magnús Stephensen,
landshöfðingi og alþingismaður. Skrifstofustjóri Alþingis 1875.

Kristján Jónsson,
háyfirdómari, alþingismaður og ráðherra. Skrifstofustjóri Alþingis 1877, 1887 og 1891.

Magnús Andrésson,
sóknarprestur og alþingismaður. Skrifstofustjóri Alþingis 1879.

Lárus E. Sveinbjörnsson,
háyfirdómari og alþingismaður. Skrifstofustjóri Alþingis 1881 og 1883.

Páll Briem,
amtmaður og alþingismaður. Skrifstofustjóri Alþingis 1885.

Gestur Pálsson,
skáld. F. á Miðhúsum á Reykjanesi í Barðastrandarsýslu 25. sept. 1852, d. 19. ágúst 1891. For.: Páll Ingimundarson bóndi þar og k. h. Ragnheiður Gestsdóttir húsmóðir. Skrifstofustjóri Alþingis 1886 og 1889.

Jón Jensson,
yfirdómari og alþingismaður. Skrifstofustjóri Alþingis 1893.

Jón Þorkelsson,
þjóðskjalavörður og alþingismaður. Skrifstofustjóri Alþingis 1894, 1901, 1902, 1903 og 1905.

Steingrímur Johnsen,
söngkennari og kaupmaður. F. í Reykjavík 10. des. 1846, d. 31. jan. 1901. For.: Hannes Johnsen kaupmaður þar og k. h. Sigríður Kristín Símonardóttir húsmóðir. Skrifstofustjóri Alþingis 1895, 1897 og 1899.

Morten Hansen,
skólastjóri. F. í Flensborg í Hafnarfirði 20. okt. 1855, d. 8. ágúst 1923. For.: Rasmus Morten Hansen verslunarstjóri þar og k. h. Ingibjörg Jóhannsdóttir húsmóðir. Skrifstofustjóri Alþingis 1907.

Einar H. Kvaran,
rithöfundur. F. í Vallanesi í Suður-Múlasýslu 6. des. 1859, d. 21. maí 1938. For.: Hjörleifur Einarsson prestur og 1. k. h. Guðlaug Eyjólfsdóttir húsmóðir. Bróðir Sigurðar H. Kvarans alþm. K. 1. Karen Mathilde húsmóðir, f. Petersen. K. 2. Gíslína Gísladóttir Kvaran húsmóðir. Skrifstofustjóri Alþingis 1909 og 1911.

Halldór Daníelsson,
hæstaréttardómari. F. í Glæsibæ í Eyjafirði 6. febr. 1855, d. 16. sept. 1923. For.: Daníel Halldórsson prestur þar og k. h. Jakobína Soffía Magnúsdóttir, f. Thorarensen húsmóðir. Bróðir Kristins Daníelssonar alþm. K. Anna María Leopoldine Halldórsdóttir, dóttir Halldórs Kr. Friðrikssonar alþm. Skrifstofustjóri Alþingis 1912 og 1913.

Einar Þorkelsson,
rithöfundur. F. á Borg á Mýrum 11. júní 1867, d. 27. júní 1945. For.: Þorkell Eyjólfsson prestur þar og k. h. Ragnheiður Pálsdóttir húsmóðir, dóttir Páls Pálssonar þfm. Bróðir Jóns Þorkelssonar alþm. K. 1. Katrín Jónsdóttir húsmóðir. K. 2. Ólafía Guðfinna Jónsdóttir húsmóðir. K. 3. Ólafía Guðmundsdóttir húsmóðir. Skrifstofustjóri Alþingis 1914-1922.

Jón Sigurðsson
frá Kaldaðarnesi. F. á Kirkjubæjarklaustri 18. febr. 1886, d. 31. okt. 1957. For.: Sigurður Ólafsson sýslumaður þar og k. h. Sigríður Jónsdóttir húsmóðir. K. Anna Guðmundsdóttir húsmóðir, dóttir Guðmundar Hannessonar alþm. Skrifstofustjóri Alþingis 1923-1956, settur skrifstofustjóri í forföllum Einars Þorkelssonar 1921-1922.

Friðjón Sigurðsson,
lögfræðingur. F. í Vestmannaeyjum 16. mars 1914, d. 14. okt. 1997. For.: Sigurður Ingimundarson útgerðarmaður og skipstjóri þar og k. h. Hólmfríður Jónsdóttir húsmóðir. K. Áslaug Siggeirsdóttir húsmóðir. Skrifstofustjóri Alþingis 1956-1984.

Friðrik Ólafsson,
lögfræðingur og skákmeistari. F. í Reykjavík 26. jan. 1935. For.: Ólafur Friðriksson verslunarmaður þar og k. h. Sigríður Ágústa Dóróthea Símonardóttir húsmóðir. K. Auður Júlíusdóttir deildarstjóri og húsmóðir. Skrifstofustjóri Alþingis 1984-2005.

Ólafur Ólafsson,
lögfræðingur. F. í Reykjavík 20. júní 1925. For.: Ólafur Þorsteinsson læknir og k. h. Kristín Ingveldur Guðmundsdóttir húsmóðir. K. 1. Svanhildur Marta Björnsdóttir röntgentæknir og húsmóðir. K. 2. Elsa Einarsdóttir húsmóðir. Settur skrifstofustjóri Alþingis í ársleyfi Friðriks Ólafssonar 1993-1994.

Helgi Bernódusson,
cand. mag. í íslensku og alm. málvísindum. F. í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1949. For. Aðalbjörg Jóhanna Bergmundsdóttir, verkakona og húsmóðir, og Bernódus Þorkelsson skipstjóri. K. Gerður Guðmundsdóttir menntaskólakennari. Skrifstofustjóri Alþingis 2005-2019.

Ragna Árnadóttir
Skrifstofustjóri Alþingis síðan 2019. Lögfræðingur. F. í Reykjavík 30. ágúst 1966. For. Guðrún Ragnarsdóttir framhaldsskólakennari og Árni Björn Jónasson verkfræðingur. Maki: Magnús Jón Björnsson tannlæknir.

Skrifstofa Alþingis: Byggt á Alþingismannatali 1996.