Ákvarðanir forsætisnefndar Alþingis

Í lokamálslið 6. gr. reglna um störf og starfshætti forsætisnefndar Alþingis segir að birta skuli ákvarðanir úr staðfestum fundargerðum forsætisnefndar, sem upplýsingalög taka til, á vef Alþingis. Þar segir jafnframt að heimilt sé að birta aðrar ákvarðanir forsætisnefndar, svo sem um störf Alþingis og stofnanir þess, samkvæmt ákvörðun nefndarinnar hvert sinn. 

Ákvarðanir forsætisnefndar eru birtar hér í tímaröð funda, þannig að sú nýjasta er efst. Miðast fyrsta birtingin, sem er neðst á listanum, við þann fund nefndarinnar þar sem reglurnar voru samþykktar, 17. mars 2020.


Forsætisnefnd 22. júní 2020


Starfsáætlun Alþingis (breyting) 

Samþykkt að fella starfsáætlun þingsins úr gildi frá og með deginum í dag, enda ljóst að ekki takist að ljúka þinghaldi innan ramma hennar, en áætlunin hafði gert ráð fyrir þingfrestun 25. júní nk.

Forsætisnefnd 8. júní 2020


Starfsáætlun Alþingis (breyting)

Forseti fékk umboð til að ganga frá breytingu á starfsáætlun Alþingis varðandi þinghald næstu viku ef þörf krefur með hliðsjón af því hvernig störfum þingsins vindur fram. Nauðsynlegt kann að verða að taka einn nefndadag undir þingfund.

Svar við erindi frá forsætisráðuneytinu (þingsköp – jafnréttismál)
Forseti kynnti svar við erindi frá forsætisráðuneytinu, dags. 21. apríl sl., þar sem óskað er eftir afstöðu Alþingis til þess að í þingsköpum verði kveðið á um sem jöfnust kynjahlutföll við kosningar til fastanefnda Alþingis og við kosningar til nefnda, ráða og stjórna sem Alþingi kýs til samkvæmt lögum. Í svarinu lýsir forseti sig reiðubúinn til að leggja til við Alþingi ofangreindar breytingar á lögum um þingsköp Alþingis annaðhvort sem hluta af víðtækari endurskoðun sem stendur þegar yfir eða sem sjálfstætt frumvarp sem leggja mætti fram á hausti komanda.