Ákvarðanir forsætisnefndar Alþingis

Í lokamálslið 6. gr. reglna um störf og starfshætti forsætisnefndar Alþingis segir að birta skuli ákvarðanir úr staðfestum fundargerðum forsætisnefndar, sem upplýsingalög taka til, á vef Alþingis. Þar segir jafnframt að heimilt sé að birta aðrar ákvarðanir forsætisnefndar, svo sem um störf Alþingis og stofnanir þess, samkvæmt ákvörðun nefndarinnar hvert sinn. 

Ákvarðanir forsætisnefndar eru birtar hér í tímaröð funda, þannig að sú nýjasta er efst. Miðast fyrsta birtingin, sem er neðst á listanum, við þann fund nefndarinnar þar sem reglurnar voru samþykktar, 17. mars 2020.


Forsætisnefnd 15. jan. 2021

Launamál þriggja embættismanna
Samþykkt breyting á launum þeirra þriggja embættismanna sem forsætisnefnd ákveður laun fyrir, en það eru skrifstofustjóri Alþingis, ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis. Samþykkt að laun þeirra taki sömu hækkunum og laun ráðuneytisstjóra og hæstaréttardómara, en þau hækkuðu um 3,4% 1. janúar sl. Skrifstofustjóri vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

Endurskoðun starfsreglna fastanefnda
Samþykkt tillaga frá nefndasviði um heildarendurskoðun á reglum sem gilda um starfsemi fastanefnda Alþingis. Endurskoðun verður í samræmi við verklag sem tilgreint er í minnisblaði nefndasviðs um málið.

Forsætisnefnd 30. nóv. 2020

Breyting á starfsáætlun
Samþykkt sú breyting á starfsáætlun að fimmtudagurinn 3. desember verði þingfundadagur en ekki nefndadagur eins og gildandi starfsáætlun kveður á um.