Laun og starfskjör þingmanna

Ferðakostnaður innan lands

Þingmenn geta fengið ýmsan útlagðan ferðakostnað innan lands endurgreiddan samkvæmt framvísun reikninga í samræmi við reglur þar um. Í öllum tilvikum er miðað við að þingmenn velji hagkvæmasta ferðamáta í ferðum er tengjast starfi þeirra. Undir slíkan endurgreiddan ferðakostnað fellur eftirfarandi: 

Ferðir milli heimilis (eða starfsstöðvar) og Reykjavíkur. Njóti þingmaður húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslna er heimilt að endurgreiða allt að einni ferð á viku á þingtímanum. Þingmaður sem býr utan höfuðborgarsvæðis og fer milli heimilis og Alþingis daglega um þingtímann á rétt á að fá endurgreiddar allar slíkar ferðir, enda fær hann þá einungis þriðjung fastrar húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslu. 

Ferðir á fundi eða samkomur í eigin kjördæmi eða í önnur kjördæmi en eigið. Til staðfestingar á tilefni ferðar skal alþingismaður leggja fram upplýsingar eða gögn samkvæmt nánari ákvörðun skrifstofunnar. Undir slíkt falla gögn og upplýsingar um fund eða samkomu sem alþingismanni er boðið til eða hann hefur sótt, eða sem hann boðar sjálfur til skv. auglýsingu um slíkan atburð. Endurgreiðslur  ferðakostnaðar miðast við að vegalengd á fundarstað sé a.m.k. 15 km (önnur leiðin) frá heimili eða starfsstöð.