Um þingflokka

Þingmenn skipa sér í þingflokka og velja sér formann sem kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart forseta og öðrum þingflokkum og þingmönnum. Forseti Alþingis skal hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa. Þingflokkar koma vanalega saman til fundar tvisvar í viku á þingtímanum.

Þingflokkar eftir Alþingiskosningar 2016

Sjö stjórnmálasamtök fengu fulltrúa kjörna á Alþingi í alþingiskosningunum 29. október 2016: Björt framtíð (4), Framsóknarflokkur (8), Píratar (10), Samfylkingin (3), Sjálfstæðisflokkur (21) , Viðreisn (7) og Vinstri hreyfingin – grænt framboð (10).

Utan þingflokka

Þingmaður getur sagt sig úr þingflokki á kjörtímabili og gengið til liðs við aðra þingflokka eða starfað utan þingflokka.

Fyrri þingflokkar (skráning frá 80. þingi 1959-1960)

Hreyfingin. Hreyfingin var stofnuð haustið 2009 af hópi fólks sem sagði sig frá Borgarahreyfingunni í kjölfar ágreinings um eðli Borgarahreyfingarinnar sem stjórnmálaafls, þar á meðal þremur þingmönnum sem kosnir höfðu verið á þing vorið 2009 fyrir Borgarahreyfinguna.
Borgarahreyfingin. Stjórnmálahreyfing, stofnuð 2009 í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi. Sama ár leystist þingflokkur Borgarahreyfingarinnar upp þegar þrír þingmenn hennar stofnuðu Hreyfinguna en einn þingmaður hafði áður sagt sig frá Borgarahreyfingunni og sat utan þingflokka. 
Þingflokkur óháðra. Þingflokkur, stofnaður í september 1998 af þrem þingmönnum Alþýðubandalags og eins utan þingflokks, einkum til samstarfs og aukinna áhrifa þingmannanna innan þings, en ekki um sérstök málefni eða framboð. 
Frjálslyndi flokkurinn. Stjórnmálaflokkur, stofnaður árið 1998 að frumkvæði Sverris Hermannssonar fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fleiri fylgismanna breytinga á kvótakerfi í stjórnun fiskveiða sem var meginstefnumál flokksins. 
Þingflokkur jafnaðarmanna. Þingflokkur, stofnaður í september 1996 af þingmönnum Alþýðuflokks og Þjóðvaka. 
Þjóðvaki - hreyfing fólksins. Stjórnmálahreyfing, stofnuð 1994. Þingmenn Þjóðvaka og Alþýðuflokks stofnuðu 1996 nýjan þingflokk, þingflokk jafnaðarmanna. 
Þingflokkur frjálslyndra hægrimanna. Þingflokkur, stofnaður 1989 af tveimur þingmönnum úr Borgaraflokknum. Þingmenn Frjálslyndra hægrimanna gengu til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins 1990.
Borgaraflokkur. Stjórnmálaflokkur, stofnaður 1987 að frumkvæði Alberts Guðmundssonar. 
Samtök um jafnrétti og félagshyggju. Stjórnmálasamtök, stofnuð 1987 að frumkvæði Stefáns Valgeirssonar. 
Bandalag jafnaðarmanna. Stjórnmálasamtök, stofnuð 1983 að frumkvæði Vilmundar Gylfasonar. Bandalag jafnaðarmanna hlaut 4 þingmenn kjörna 1983. Árið 1986 leystist þingflokkur Bandalags jafnaðarmanna upp þegar þrír þingmenn þess gengu í Alþýðuflokkinn en einn í Sjálfstæðisflokkinn.
Samtök um kvennalista. Kvennalistinn. Stjórnmálasamtök, stofnuð 1983. 
Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Stjórnmálaflokkur, stofnaður 1969 að frumkvæði Hannibals Valdimarssonar og Björns Jónssonar. 
Alþýðubandalag. Stjórnmálaflokkur, formlega stofnaður 1968. Upphaflega (1956-1968) kosningabandalag Sósíalistaflokks og Málfundafélags jafnaðarmanna sem var klofningshópur úr Alþýðuflokknum. 
Alþýðuflokkur. Stjórnmálaflokkur, stofnaður 1916. Í skipulagstengslum við ASÍ til 1940. Þingmenn Alþýðuflokks og Þjóðvaka stofnuðu 1996 nýjan þingflokk, þingflokk jafnaðarmanna.