9.3.2016

Minningarorð um Eggert Haukdal

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, flutti minningarorð um Eggert Haukdal, fyrrverandi alþingismann, á þingfundi 9. mars 2016.

Eggert Haukdal, bóndi og fyrrverandi alþingismaður, lést á Landspítalanum miðvikudaginn 2. mars sl. Hann var á 83. aldursári.

Eggert Haukdal var fæddur í Flatey á Breiðafirði 26. apríl 1933. Foreldrar hans voru hjónin sr. Sigurður S. Haukdal prófastur þar og kona hans, Benedikta Eggertsdóttir Haukdal húsmóðir. Báðir afar Eggerts áttu sæti á Alþingi sem þingmenn Árnesinga.

 Eggert ólst upp í Flatey en fluttist með foreldrum sínum 12 ára að aldri að Bergþórshvoli í Landeyjum árið 1945. Hann lauk búfræðiprófi á Hvanneyri árið 1953 og gerðist síðar bóndi á Bergþórshvoli, fyrstu tvo áratugina í félagsbúi með föður sínum. Samhliða bústörfum tók Eggert að sinna félagsmálastörfum í Vestur-Landeyjum, á Rangárvöllum og í Suðurlandskjördæmi. Hann var í stjórn Héraðssambandsins Skarphéðins 1961–1972, formaður Búnaðarfélags Vestur-Landeyja í áratugi, kosinn í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps 1970 og var oddviti hennar lengi síðan, sýslunefndarmaður og í héraðsnefnd frá árinu 1988. Hann var formaður Sjálfstæðisfélags Rangæinga 1970–1978 og átti sæti í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi.

Þegar breytingar urðu í forustu Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi árið 1978 skipaðist svo að Eggert Haukdal varð í 1. sæti á lista flokksins í kjördæminu við alþingiskosningarnar það ár. Eftir átök um skipan listans í óvæntum  alþingiskosningunum ári síðar, í desember 1979, ákvað Eggert með stuðningsmönnum sínum að bjóða fram á sérlista og náði hann kjöri sem utanflokkamaður. Sýndi Eggert þá hve traustum fótum hann stóð meðal flokksmanna sinni í Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og víðar í kjördæminu. Eftir þær kosningar studdi Eggert myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens og var formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins 1980–1983, auk þess sem hann sat í fjárveitinganefnd. Hann tók á ný sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1983 og sat á Alþingi sem þingmaður Sunnlendinga til 1995, sat á 19 þingum alls. Eftir það varð hann viðskila við sinn gamla flokk og var tvívegis í framboði fyrir önnur samtök.

Eggert Haukdal lét atvinnumál og byggðamál mjög til sín taka á Alþingi. Hann sat í stjórn Byggðastofnunar og átti sæti í stjórnum atvinnufyrirtækja í sínu heimahéraði. Hann var öflugur talsmaður Sunnlendinga í landbúnaðar- og samgöngumálum og studdi að framförum á þeim sviðum. Þrautseigju hans var við brugðið og má sem dæmi nefna að átta sinnum flutti hann á Alþingi frumvarp um afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga sem þó varð ekki að lögum.

Eggert Haukdal fór nokkuð sínar eigin leiðir í stjórnmálum, var sjálfstæður í skoðunum og lét ógjarnan hlut sinn fyrir öðrum. Þessir þættir í fari hans, svo og öflug fyrirgreiðsla fyrir fólkið í kjördæminu, öfluðu honum trausts og vinsælda. Hann var sjálfur hlýr í viðmóti, gamansamur og þægilegur í umgengni. Hann var hæglátur maður og fór ekki um með hávaða eða málskrafi, var ræktarsamur við kjósendur og skyldurækinn við störf sín hér á Alþingi sem annars staðar þar sem hann lagði hönd að.

Ég bið þingheim að minnast Eggerts Haukdals, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum.