2.11.2015

Minningarorð um Guðbjart Hannesson alþingismann

Minningarorð forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, um Guðbjart Hannesson alþingismann á þingfundi 2. nóv. 2015.

Þau sorglegu tíðindi bárust föstudaginn 23. okt. síðastliðinn, degi eftir að síðasta þingfundi lauk, að einn úr hópi okkar alþingismanna, Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi forseti Alþingis og fyrrverandi ráðherra, hefði andast þá um morguninn í sjúkrahúsi á Akranesi. Flestum okkar, sem fylgst höfðum með högum hans og heilsu undanfarna mánuði, komu þessi leikslok ekki að óvörum. En andlát hans snart okkur djúpt. Í hetjulegri baráttu við skæðan og illvígan sjúkdóm, krabbamein, sýndi hann óvenjulegt æðruleysi. Hugur okkar hvarflar nú til vordaganna síðustu þegar við kvöddum Guðbjart, glaðan og reifan, með hugann við gleðilega atburði sem fram undan voru í fjölskyldunni. Bros hans og hlýja verður okkur lengi minnisstæð, svo og sú drenglund og prúðmennska sem við jafnan mættum í samstarfi við þennan heilsteypta og vinnusama Skagamann hér í sölum Alþingis.

Guðbjartur var jarðsettur sl. föstudag á Akranesi að viðstöddu miklu fjölmenni.

Guðbjartur Hannesson var fæddur á Akranesi 3. júní 1950, sonur hjónanna  Hannesar Þjóðbjörnssonar verkamanns og Ólafíu Rannveigar Jóhannesdóttur húsfreyju. Hann lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1971 og síðar tómstundakennaraprófi í Danmörku 1978, og kenndi þau fræði síðan árið eftir við skóla í Kaupmannahöfn. Hann stundaði síðar framhaldsnám í skólastjórn við Kennaraháskólann og lauk svo meistaraprófi frá kennaraskóla í Lundúnum árið 2005.

Strax að loknu kennaranámi hóf Guðbjartur kennslu við Grunnskóla Akraness, en varð tveimur árum síðar erindreki Bandalags íslenskra skáta, 1973–1975. Að loknu framhaldsnáminu í Danmörku og dvöl þar varð hann kennari á ný á Akranesi og tveimur árum síðar, 1981, rétt rúmlega þrítugur, skólastjóri Grundaskóla á Akranesi. Þeirri stöðu gegndi hann með vinsældum og virðingu allt þar til hann var kosinn á Alþingi 2007. Hann varð virtur fyrir störf sín sem framsækinn og farsæll skólastjóri í tæpa þrjá áratugi. Skólinn hans, Grundaskóli, varð fyrstur skóla til að hljóta Íslensku menntaverðlaunin árið 2006. Guðbjartur naut sín vel í starfi með börnum og unglingum, var þeim mikil fyrirmynd sjálfur í heilbrigðum lífsháttum og lífsviðhorfum, reglusamur í hvívetna, samviskusamur og dugmikill í starfi. Hann naut mikils álits nemenda sinna. Fyrir störf sín á þeim vettvangi mun hans lengi minnst á Akranesi.

Guðbjartur Hannesson gekk til liðs við Alþýðubandalagið á Akranesi og var hann þrívegis kjörinn af lista þess í bæjarstjórn á árunum 1986–1998. Allan þann tíma sat hann í bæjarráði og var formaður þess um skeið og forseti bæjarstjórnar þrisvar sinnum.

Guðbjartur var í eðli sínu mikill félagsmálamaður. Í æsku varð hann skáti og þeim félagsskap þjónaði hann lengi; var ávallt skáti. Þegar hann hóf afskipti af sveitarstjórnarmálum í heimabæ sínum tók hann sæti í mörgum nefndum á vegum bæjarins, m.a. um byggingu Grundaskóla og leikskólans Garðasels, en  æskulýðs- og skólamál og málefni íþróttahreyfingarinnar bar hann ætíð mjög fyrir brjósti.            

Þegar dró að alþingiskosningum 2007 ákvað Guðbjartur að fara inn á vettvang landsmálanna. Nafn hans hafði oft áður verið nefnt sem hugsanlegs frambjóðanda. Reynsla hans af sveitarstjórnarmálum, orðspor í starfi og aðrir eðliskostir tryggðu honum fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Það sæti skipaði hann síðan.

Guðbjartur Hannesson var fullþroska stjórnmálamaður er hann tók sæti á Alþingi, 57 ára gamall, langreyndur úr stjórnmálastarfi og hafði einnig um fimm ára skeið setið í bankaráði Landsbanka Íslands. Hann varð við upphaf þingsetunnar formaður félagsmálanefndar. Eftir stjórnarskiptin í byrjun febrúar 2009 var Guðbjartur kosinn forseti Alþingis. Naut hann reynslu sinnar og trausts við forsetastörfin, sýndi lipurð og sanngirni, en mikil ólga var þá í stjórnmálum og átök hörð. Eftir kosningarnar kom í ljós að hugur Guðbjarts stóð ekki til forsetaembættisins á ný heldur vildi hann vera virkur þátttakandi í stjórnmálunum á þinginu. Hann varð formaður fjárlaganefndar sem ekki var létt hlutskipti við þær aðstæður sem þá ríktu. Rösku ári síðar, hinn 2. sept. 2010, tók Guðbjartur sæti í ríkisstjórn, fór með félags-, trygginga- og heilbrigðismál, og nokkru síðar tók hann við hinu nýstofnaða velferðarráðuneyti. Því embætti gegndi hann fram yfir kosningarnar 2013. Málaflokkar Guðbjarts voru sannarlega erfiðir viðfangs vegna áfalla í efnahagsmálum en þeim sinnti hann af dugnaði, áhuga og þekkingu. Eftir síðustu kosningarnar sat hann í allsherjar- og menntamálanefnd og var þar á heimavelli. Guðbjartur tók þátt í alþjóðastarfi alþingismanna, sat um tíma í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins, Vestnorræna ráðinu, og á þessu kjörtímabili var hann í Norðurlandaráði og þetta árið varaforseti ráðsins.;

Þótt þingseta Guðbjarts Hannessonar yrði ekki löng, átta ár, en ellefu löggjafarþing, var hann á þeim tíma valinn til allra helstu trúnaðarstarfa á Alþingi, nefndaformennsku, ráðherrastarfa og forsetaembættis, auk þess sem hann var í forustusveit síns flokks. Í öllum þessum störfum var hann farsæll, þægilegur í viðmóti, hófsamur og samstarfsfús. Hann kom vel fyrir sig orði og gat verið fastur fyrir þegar í odda skarst.

Í huga okkar alþingismanna verður bjart yfir minningu Guðbjarts Hannessonar sem nú hefur fallið frá svo óvænt og snöggt, langt fyrir aldur fram, þegar enn var margt óunnið.

Ég bið þingheim að minnast Guðbjarts Hannessonar, alþingismanns, og fyrrverandi forseta Alþingis, með því að rísa úr sæti.