2.12.2015

Minningarorð um Lárus Jónsson, fyrrverandi alþingismann

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, flutti minningarorð um Lárus Jónsson, fyrrverandi alþingismann, á þingfundi 2. desember 2015. 

Lárus Jónsson, fyrrverandi alþingismaður, lést sl. sunnudagskvöld á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Hann var 82 ára að aldri. 

Lárus Jónsson var fæddur í Ólafsfirði 17. nóvember 1933 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru hjónin Jón Ellert Sigurpálsson skipstjóri þar og kona hans Unnur Þorleifsdóttir húsmóðir. 

Lárus lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954 og prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1960. Samhliða háskólanámi stofnaði Lárus fjölskyldu og var starfsmaður við Veðurstofu Íslands. Er námi lauk fluttist hann á ný í heimabæ sinn, Ólafsfjörð, og varð bæjargjaldkeri þar í átta ár. Árið 1968 varð Lárus starfsmaður í útibúi  Efnahagsstofnunarinnar á Akureyri, vann m.a. að svokallaðri Norðurlandsáætlun í atvinnumálum, en árið 1970 gerðist hann framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Norðlendinga. 

Lárus Jónsson hóf afskipti af stjórnmálum er hann settist á ný að á Ólafsfirði, var formaður félags ungra sjálfstæðismanna þar og síðar í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hann var kosinn bæjarfulltrúi á Ólafsfirði árið 1966 og á Akureyri 1970 eftir að hann var fluttur þangað. Þegar mikil endurnýjun varð hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðurlandskjördæmi eystra fyrir kosningarnar 1971 varð góð samstaða um að Lárus skipaði 2. sæti á lista flokksins við kosningarnar þá, og síðar, við kosningarnar 1979 og 1983, var hann í forustusæti listans. Hann sat á 15 þingum alls. 

Lárus Jónsson var starfsamur þingmaður, setti sig vel inn í mál og var hófsamur í málflutningi. Hann beitti sér mjög í byggðamálum og atvinnumálum og stóð jafnframt vörð um hagsmuni síns kjördæmis og sinna umbjóðenda. Hann tók á öðru kjörtímabili sínu sæti í fjárveitinganefnd, eins og nefndin hét þá, og varð einn helsti talsmaður síns flokks í ríkisfjármálum upp frá því. Hann var formaður nefndarinnar síðasta þingvetur sinn, 1983–1984, og beitti sér fyrir margvíslegum umbótum við fjárlagagerðina. Vorið 1984 ákvað Lárus hins vegar að söðla um, sagði af sér þingmennsku og varð bankastjóri Útvegsbanka Íslands. Eftir að bankinn hætti störfum 1987 stundaði Lárus sérfræðistörf á eigin vegum en varð svo árið 1988 framkvæmdastjóri Félags rækju- og hörpudisksframleiðenda um þriggja ára skeið. Árið 1991 var hann skipaður framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna og gegndi því starfi til starfsloka, 1999. Rótarý-hreyfingin hér á landi og á Norðurlöndum naut starfskrafta Lárusar lengi, en hann var m.a. umdæmisstjóri hreyfingarinnar á Íslandi 1967–1968. 

Lárus Jónsson naut mikils trausts hvarvetna sem hann starfaði. Hann var vinsæll og vel látinn, vinmargur og vinfastur, og heill í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, hlýr í viðmóti og hláturmildur. Þegar embættisönnum lauk tók Lárus að leggja rækt við skáldskap sem hann hafði hneigð til og liggja frá hendi hans tvær ljóðabækur. Ljóðin lýsa í hug hans og sýna á honum alvarlegri hlið og bæði dýpt og heilindi. 

Ég bið þingheim að minnast Lárusar Jónssonar, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum.