26.5.2015

Minningarorð um Skúla Alexandersson

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, flutti minningarorð um Skúla Alexandersson, fyrrverandi alþingismann, á þingfundi 26. maí 2015.

Skúli Alexandersson, fyrrverandi alþingismaður, lést á Landspítalanum í Reykjavík síðastliðinn laugardag af völdum hjartaáfalls. Hann var 88 ára að aldri.

Skúli var fæddur í Kjós, inn af Djúpuvík í Reykjarfirði á Ströndum, 9. sept. 1926. Foreldrar hans voru Alexander Árnason, bóndi þar, og kona hans, Sveinsína Ágústsdóttir húsfreyja. Hann lauk héraðsskólaprófi í Reykjanesi árið 1942, prófi frá Samvinnuskólanum árið  1950 og námi í framhaldsdeild Samvinnuskólans 1951. Var Skúli síðan veturinn eftir verslunarmaður hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki en féllst þá á fyrir bænastað vinar síns að koma á Hellissand og vinna þar tímabundið í Kaupfélaginu. Varð það upphaf að meira en 60 ára búsetu hans á Hellissandi, eða allt til þess að hann fluttist á Hrafnistu í Hafnarfirði fyrr á þessu ári. Við Kaupfélagið á Sandi starfaði Skúli til ársins 1955, rak útgerð frá 1954–1969 og var framkvæmdastjóri Jökuls hf. á Hellissandi frá árinu 1961, allt þar til því félagi var slitið um þremur áratugum síðar.

Skúli Alexandersson varð þegar á ungum aldri róttækur í skoðunum og skipaði sér í sveit með sósíalistum og síðar Alþýðubandalaginu. Hann var oddviti Neshrepps utan Ennis 1954–1966, 1970–1974 og 1978–1981.  Skúli var skipaður í stjórn landshafnar í Rifi, flugráð og stjórn Sementsverksmiðjunnar, svo fátt eitt sé talið af opinberum störfum hans. Þá kom hann enn fremur að undirbúningi að stofnun þjóðgarðs undir Jökli.

Skúli Alexandersson varð varaþingmaður Alþýðubandalagsins í Vesturlandskjördæmi við kosningarnar 1971 og sat alloft á þingi sem slíkur, allt þar til hann var kosinn alþingismaður í vetrarkosningunum 1979. Sat hann þá samfellt til ársins 1991; sat á 19 löggjafarþingum alls. Í þingstörfum kom Skúli víða við en mest sinnti hann málefnum sjávarútvegs og samgöngumálum. Hafði hann mikla þekkingu á sjávarútvegi, enda sprottinn úr þannig jarðvegi og útgerð og vinnsla helsta viðfangsefni hans á Hellissandi. Um þau mál talaði hann tæpitungulaust og var fastur fyrir þegar um hagsmuni umbjóðenda hans var að tefla.

Skúli átti djúpar rætur í heimabyggð sinni. Þegar hann lét af þingmennsku helgaði hann sig störfum í þágu hennar, var frumkvöðull í ferðaþjónustu og lagði sig fram um að halda til haga fróðleik um Snæfellsnes sem ella væri gleymdur og grafinn. Rak hann m.a. gistihúsið Gimli á Hellissandi og stóð að byggingu og rekstri Hótels Hellissands. Leiddi hann ferðahópa um Snæfellsnes við miklar vinsældir.

Skúli Alexandersson var vel að manni og röskur til allra verka og dugnaðarforkur, gustmikill á stundum og skeleggur þegar mikið lá við að hans mati. Hann var hrókur alls fagnaðar þar sem hann var, hláturmildur og sögumaður góður. Þeim eiginleikum hélt hann til hinstu stundar. Hjálpsemi hans og góðfýsi var við brugðið, en þess nutu umfram aðra samferðamenn hans á Hellissandi, Snæfellsnesi og í Vesturlandskjördæmi sem áður var.

Ég bið þingheim að minnast Skúla Alexanderssonar, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum.