4.4.2016

Minningarorð um Stefán Gunnlaugsson, fyrrverandi alþingismann

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson flutti minningarorð um, um Stefán Gunnlaugsson, fyrrverandi alþingismann, á þingfundi mánudaginn 4. apríl 2016.

Stefán Gunnlaugsson, fyrrverandi alþingismaður, lést miðvikudaginn í dymbilviku, 23. mars, á Hrafnistu í Hafnarfirði. Hann var níræður að aldri.

Stefán Sigurður Gunnlaugsson var fæddur í Hafnarfirði 16. desember 1925. Foreldrar hans voru hjónin Gunnlaugur Stefán Stefánsson, bakari og síðar kaupmaður þar, og kona hans, Snjólaug Guðrún Árnadóttir húsmóðir.

Stefán lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1945. Eftir störf í Útvegsbankanum í eitt ár fór hann utan til framhaldsnáms í London og Exeter á Englandi í þrjú ár. Að námi loknu, árið 1949, varð hann fulltrúi í Tryggingastofnun ríkisins.

Stjórnmál, jafnaðarstefnan og bæjarmál í Hafnarfirði áttu þó hug Stefáns allan, eins og margra annarra í fjölskyldu hans í „kratabænum“ eins og hann var kallaður. Heim kominn frá námi varð hann þegar formaður Félags ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði 1949–1951, var kosinn í miðstjórn Alþýðuflokksins 1950 og bæjarfulltrúi flokksins í Hafnarfirði 1950–1954. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 1954 varð Stefán Gunnlaugsson bæjarstjóri í Hafnarfirði, aðeins 28 ára gamall, og gegndi því starfi í tvö kjörtímabil, til ársins 1962. Hann var á ný kosinn í bæjarstjórn 1970 og sat þá eitt kjörtímabil og var jafnframt forseti bæjarstjórnar þann tíma, til 1974. Samhliða bæjarstjórastarfi sat Stefán í ýmsum nefndum bæjarins og stjórnum fyrirtækja.

Árið 1962 hóf Stefán störf í viðskiptaráðuneytinu og fékkst við útflutningsmál. Árið 1982 tók hann við stöðu viðskiptafulltrúa við sendiráð Íslands í London og gegndi henni í fimm ár. Síðustu starfsár sín, 1987–1991, vann Stefán í útflutningsskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Í alþingiskosningunum 1971 réðst svo að Stefán Gunnlaugsson tók sæti á lista Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi sem fulltrúi Hafnfirðinga. Hann sat eitt kjörtímabil, fram til sumars 1974, á þremur löggjafarþingum.

Stefán Gunnlaugsson ólst upp og starfaði lengi í Hafnarfirði þar sem Alþýðuflokkurinn átti eitt sitt sterkasta vígi. Þar skipaði hann sér í sveit, kappsamur hugsjónamaður, og var valinn ungur að aldri til forustustarfa. Hann þótti úrræðagóður maður og góðviljaður, og studdi þá sem höllum fæti stóðu. Hann var hreinn og beinn við alla samferðamenn sína, ódeigur í málflutningi og jafnan glaður í sinni. Frá æskuárum og fram eftir allri ævi voru stjórnmálin aðaláhugaefni hans. Og það gladdi hann mjög að þrír synir hans, Finnur Torfi, Guðmundur Árni og Gunnlaugur tóku sæti á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn.
Ég bið þingheim að minnast Stefáns Gunnlaugssonar, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum.