3.5.2012

Minningarorð um Guðrúnu J. Halldórsdóttur, fyrrverandi alþingismann

Guðrún J. Halldórsdóttir, fyrrverandi skólastjóri og alþingismaður, lést í gærmorgun á hjúkrunarheimilinu Skjóli hér í bæ, 77 ára gömul.

Guðrún Jónína Halldórsdóttir var fædd í Reykjavík 28. febrúar 1935. Foreldrar hennar voru hjónin Þorbjörg Jónsdóttir húsmóðir og Halldór Jónsson trésmiður, en þau voru af húnvetnskum ættum.

Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955. Hún las íslensk fræði við Háskóla Íslands um tveggja ára skeið en lauk síðan prófi frá Kennaraskólanum 1962. BA-prófi í dönsku og sagnfræði lauk hún við Háskóla Íslands 1967.

Hún var um árabil starfsmaður Landsbanka Íslands, eða þar til hún varð kennari við Lindargötuskóla 1962 og starfaði þar í áratug. Árið 1972 tók hún við þeirri stöðu sem nafn hennar verður lengst kennt við, en þá varð hún forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur. Hún ávann sér virðingu og vinsældir fyrir óvenjufórnfúst starf á þeim vettvangi, studdi þá nemendur áfram, sem áttu við námsörðugleika að etja eða stóðu höllum fæti. Munu nú margir, sem fyrir hennar tilstuðlan komust til frekara náms og hollra starfa, minnast hennar þakklátum huga. Þá hlaut hún sérstaka viðurkenningu fyrir kennslu flóttamanna, sem hingað komu, og annarra nýbúa. Í samstarfi við verkalýðshreyfinguna vann hún enn fremur að menntun ungs verkafólks.

Guðrún lét að sér kveða í samtökum kennara og ritaði kennslubækur og greinar í blöð og tímarit um kennslumál. Hún var meðal annars lengi formaður Félags dönskukennara og var í stjórn félags sem beittir sér fyrir umbótum í málefnum lesblindra. Hún átti gott með að vinna með fólki, og skopskyn hennar og frjálsleg framkoma aflaði henni vinsælda samferðarmanna.

Þegar samtök um kvennalista voru í mótun fyrir þingkosningarnar 1983 var Guðrún J. Halldórsdóttir þar á vettvangi, enda baráttukona fyrir kvenfrelsi og jafnrétti. Hún var ofarlega á lista samtakanna þá og tók einu sinni sæti sem varaþingmaður. Í kosningunum 1987 og 1991 var hún kjörin varaþingmaður og settist nokkrum sinnum á þing sem varamaður. Við þingmennskuafsal 1990 tók hún fast sæti alþingismanns og sat fram að kosningum 1991 og aftur af sömu ástæðum 1994 og sat þá fram að kosningum 1995. Alls sat hún á átta þingum.

Guðrún J. Halldórsdóttir var roskin að aldri og þroska er hún hóf afskipti af stjórnmálum á vettvangi Alþingis. Hún var hófsöm í málflutningi en málstaður hennar var skýr. Á orð hennar var hlustað með athygli, slíkur sem orðstír hennar var fyrir störf að velferð ungmenna, aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og jafnrétti karla og kvenna. „Að opna dyr“ var titill bókar með æviminningum hennar.