1.2.2012

Minningarorð um Láru Margréti Ragnarsdóttur, fyrrverandi alþingismann

Þau óvæntu tíðindi bárust að sunnudagskvöldið 29. janúar hefði Lára Margrét Ragnarsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, orðið bráðkvödd á heimili sínu hér í borg. Hún var aðeins 64 ára gömul.

Lára Margrét Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík 9. október 1947. Foreldrar hennar voru Ragnar Tómas Árnason, útvarpsþulur og síðar verslunarmaður, og kona hans, Jónína Vigdís Schram læknaritari.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1967 og prófi í viðskiptafræðum í Háskóla Íslands 1977. Hún stundaði framhaldsnám við Verslunarháskólann í Björgvin í Noregi í tvö ár og var Eisenhower-styrkþegi í Bandaríkjunum árið 1990.

Eftir stúdentspróf var Lára Margrét skrifstofustjóri hjá Læknasamtökunum í fjögur ár, og síðar var hún ráðgjafi í sjúkrahússtjórn í Boston í Bandaríkjunum 1982-1983, en hún dvaldist vestra í nokkur ár. Hún varð forstöðumaður áætlana- og hagdeildar Ríkisspítalanna 1983-1985 og tók síðan við starfi framkvæmdastjóra Stjórnunarfélags Íslands og gegndi því í fjögur ár. Þá hvarf hún á ný til starfa hjá Ríkisspítölunum sem forstöðumaður þróunardeildar. Samhliða þessum störfum var hún kennari í heilsuhagfræði við Hjúkrunarskólann.

Í alþingiskosningunum vorið 1991 var Lára Margrét kjörin á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík eftir gott gengi í prófkjöri nokkru áður. Hún sat á Alþingi þrjú full kjörtímabil, eða til ársins 2003. Eftir það var hún varaþingmaður eitt kjörtímabil og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi sem slík. Hún sat samtals 18 þing.

Á Alþingi beitti Lára Margrét sér mest í heilbrigðismálum, svo sem vænta mátti, enn fremur í utanríkismálum og var allan þingtíma sinn í utanríkismálanefnd. Hún varð strax mjög virk í alþjóðasamstarfi þingmanna, einkum í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, en hún var formaður hennar í átta ár. Innan Evrópuráðsins valdist hún til margvíslegra ábyrgðarstarfa og var um tíma varaforseti Evrópuráðsins.

Hún átti sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum, jafnt í heilbrigðismálum sem atvinnumálum, og var jafnframt í stjórn Íslensku óperunnar lengi, enda mikill tónlistarunnandi.

Eftir að þingmennsku lauk fékkst Lára Margrét við ýmis störf, bæði hér heima og erlendis.

Þegar Lára Margrét Ragnarsdóttir kom til þings 1991, í hópi margra nýrra þingmanna eftir kosningarnar það ár, var hún vel undir þingmennsku búin, með góða menntun og víðtæka reynslu á ýmsum starfssviðum. Hún gekk ákveðin til starfa og lét að sér kveða. Hún var glaðbeitt, broshýr og vel látin í samstarfi á þinginu. Frami hennar í alþjóðlegu samstarfi þingmanna byggðist í senn á dugnaði hennar, góðri tungumálakunnáttu og jákvæðum starfsanda. Hér á Alþingi skilur hún eftir góðar minningar hjá þeim sem með henni störfuðu. Við snöggt og óvænt andlát hennar eru efst í huga þakkir fyrir góð og heilladrjúg störf á vettvangi Alþingis.