16.1.2012

Minningarorð um Sigurð Bjarnason, fyrrverandi alþingismann

Sigurður Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður, lést á elliheimilinu Grund hér í bæ fimmtudaginn 5. janúar sl. Hann var á 97. aldursári.

Sigurður Bjarnason var fæddur 18. desember 1915 í eynni Vigur í Ísafjarðardjúpi og var jafnan kenndur við þann stað. Foreldar hans voru hjónin Björg Björnsdóttir húsfreyja þar og Bjarni Sigurðsson bóndi. Ættmenn Sigurðar hafa komið mjög við sögu Alþingis. Afi hans, séra Sigurður Stefánsson, var annálaður þingskörungur, afabróðir hans, Stefán Stefánsson skólameistari, og Sigurlaug, systir hans, sátu á Alþingi um hríð.

Sigurður lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri árið 1936 og síðar lögfræðiprófi við Háskóla Íslands 1941. Framhaldsnám stundaði hann í Cambridge í Bretlandi 1945.

Sigurður réðst að loknu námi sem blaðamaður að Morgunblaðinu hjá frænda sínum, Valtý Stefánssyni, og vann við blaðið í nær þrjá áratugi. Hann var einn af ritstjórum þess frá 1947 til 1970.

Í sumarkosningunum 1942 var Sigurður kjörinn alþingismaður Norður-Ísfirðinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn, aðeins 27 ára gamall, og átti þar öruggt sæti fram að kjördæmabreytingunni 1959. Hann átti sæti á Alþingi því er kom saman á Þingvöllum 17. júní 1944 þegar lýðveldi var stofnað á Íslandi og síðustu tengsl við önnur ríki voru rofin. Hann er síðastur alþingismanna í þeim hópi sem kveður.

Við kjördæmabreytinguna 1959 hvarf Sigurður af þingi eitt kjörtímabil en varð þá varaþingmaður Vestfjarðarkjördæmis og tók sæti á öllum þingunum og sat stundum lengi. Hann var kjörinn alþingismaður á ný 1963 og sat á Alþingi fram á árið 1970, sat alls 31 þing, en það ár afsalaði hann sér þingmennsku og varð sendiherra Íslands í Danmörku. Sex árum síðar varð hann sendiherra í Englandi. Hann lauk starfsferli sínum í utanríkisráðuneytinu 1985.

Sigurður sat í bæjarstjórn Ísafjarðar 1946-1950 og var þá forseti hennar.

Sigurður Bjarnason lét menningarmál mjög til sín taka. Hann var stjórnarformaður menningarsjóðs blaðamanna um langt skeið, formaður Blaðamannafélagsins og formaður Norræna blaðamannasambandsins tvö ár. Hann sat í útvarpsráði 1947-1970, og var formaður þess um skeið. Flutti hann alloft erindi í útvarpið um margvísleg mál. Hann sat í úthlutunarnefnd listamannalauna og enn fremur í Þingvallanefnd í allmörg ár.

Þá var Sigurður mikill áhugamaður um norræna samvinnu og sat lengi í Norðurlandaráði, var formaður Íslandsdeildarinnar um tíma og forseti ráðsins 1965. Auk þessa var hann formaður Norræna félagsins í fimm ár.

Sigurður Bjarnason var Vestfirðingur í húð og hár og ræktaði ávallt þann uppruna sinn og var fróður um fólk og sögu á þeim slóðum. Hann ólst upp við almenn bústörf í Vigur og sjósókn, og síðar á ævinni fór hann nær hvert sumar til lundaveiða og heyskapar á heimaslóðirnar. Hann hafði náið og gott samstarf við kjósendur sína, var mannblendinn og átti létt með að kynnast fólki. Hann lét sér mjög annt um lífsbjörg Vestfirðinga og rak erindi þeirra jafnt á Alþingi sem í opinberum stofnunum af krafti.

Hann hafði yndi af ritstörfum, var fjörmikill menningarmaður, vinmargur og vinsæll, enda hlýr í viðmóti. Sem einn þingforsetanna naut hann trausts og trúnaðar allra alþingismanna sem samtímis voru honum á þingi og var lipur og öruggur við fundarstjórnina.

Langt er um liðið síðan sá öldungur sem hér er kvaddur hvarf af Alþingi, en þess ber að minnast að Sigurður Bjarnason frá Vigur gegndi forsetastörfum í þessum sal, sem forseti neðri deildar, í samtals 17 ár. Hann var forseti deildarinnar 1949-1956 og á ný 1963-1970, en hafði áður verið varaforseti í þrjú ár. Hefur aðeins einn alþingismaður skipað það sæti sem ég tala nú frá lengur en hann.