10.11.2011

Minningarorð um Matthías Á. Mathiesen, fyrrverandi alþingismann

Matthías Á. Mathiesen, fyrrv. alþingismaður og ráðherra, lést í gærmorgun eftir stranga sjúkdómslegu, áttræður að aldri.

Matthías Árni Mathiesen var fæddur í Hafnarfirði 6. ágúst 1931. Foreldrar hans voru hjónin Árni Matthías Mathiesen, lyfjafræðingur og síðar kaupmaður, og Svava E. Mathiesen húsmóðir.

Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1951 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1957 og hlaut síðar málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Að loknu háskólanámi hóf Matthías störf í atvinnumálaráðuneytinu en varð 1958 sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar og gegndi því starfi í tæpan áratug. Eftir það rak hann málflutningsskrifstofu með nokkurum hléum.

Matthías gekk ungur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, var formaður ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði nokkur ár og síðar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna þar í bæ. Hann átti sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1965-1991.

Matthías fór fyrst í framboð til þings fyrir flokk sinn 27 ára gamall í Hafnarfirði í sumarkosningunum 1959 og vann þar eftirminnilegan sigur, en aðalandstæðingur hans var Emil Jónsson, forsætisráðherrann þáverandi. Frá og með haustinu 1959 varð hann svo alþingismaður Reyknesinga og eftir fráfall Ólafs Thors 1964 forustumaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu í röskan aldarfjórðung.

Hann var fjármálaráðherra 1974-1978, viðskiptaráðherra 1983-1985, utanríkisráðherra 1986-1987 og loks samgönguráðherra 1987-1988.

Hann átti sæti á Alþingi samfleytt til 1991, í 32 ár, og sat alls 35 þing. Hann er í hópi þeirra rúmlega 20 þingmanna sem lengsta þingsetu eiga.

Matthíasi voru falin margvísleg trúnaðarstörf utan þings sem ekki verða öll talin hér, en hann átti sæti í bankaráði Landsbanka Íslands í tæpa tvo áratugi og sæti í stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar lengi, og lengst af sem formaður, en um þá stofnun lét hann sér mjög annt. Hann var mjög virkur í alþjóðlegu samstarfi þingmanna. Einkum vann hann á vettvangi Norðurlandaráðs og var tvívegis forseti ráðsins, 1970 og 1980, en einnig í þingmannasamtökum NATO og var formaður þeirra samtaka eitt ár.

Matthías var mjög áhugasamur um störf og starfshætti Alþingis og beitti sér fyrir umbótum í kjörum og starfsaðstöðu alþingismanna sem voru með fornlegu sniði þegar hann kom fyrst til þings. Hann var varaforseti neðri deildar um skeið og forseti deildarinnar 1970-1971. Er hann lét af þingmennsku var hann í áratug formaður Félags fyrrverandi alþingismanna.

Matthías Á. Mathiesen var ungur að árum er hann tók sæti á Alþingi í fyrsta sinn og starfaði hér blóma sinnar starfsævi. Hann var öflugur málsvari kjósenda sinna og síns kjördæmis og ræktaði samband sitt við kjósendur afar vel. Þegar hann hafði öðlast þingreynslu var hann valinn í forustusveit flokks síns og gegndi mikilvægum ráðherraembættum í tæpan áratug. Hann lét mjög til sín taka í öllu starfi þingsins og var vel metinn fyrir frjálslegt viðmót og lipurð í samskiptum. Hann leitaði jafnan málamiðlana þegar ágreiningur var uppi. Í málflutningi sínum gætti hann hófs og hjó ekki fast í andstæðinga sína úr ræðustól. Þannig var skapferli hans. Vinsældir hans voru almennar og hann vinamargur, ekki hvað síst í heimabæ sínum, Hafnarfirði, en þeim stað unni hann heitt og því fólki sem þar býr. Sögu Hafnarfjarðar og Hafnfirðinga kunni hann betur en flestir aðrir.

Ég bið þingheim að minnast Matthíasar Á. Mathiesens með því að rísa úr sætum.