18.4.2008

Ásta Möller kosin í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins

118. þing Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) fór fram í Höfðaborg í Suður-Afríku dagana 13.-18. apríl. Fundinn sóttu alþingismennirnir Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður og Þuríður Backman. Yfir 700 þingmenn frá 130 ríkjum sóttu fundinn og hefur þátttakan aldrei verið meiri.

Á þingfundi sambandsins 18. apríl var Ásta Möller skipuð í framkvæmdastjórn IPU. Ásta vann afgerandi sigur í kosningu til framkvæmdastjórnarinnar (37 atkv. gegn 26), en valið stóð á milli hennar og þýsku þingkonunnar Moniku Griefahn. Kosningin fór fram í landahóp vestrænna lýðræðisríkja (12+) og verður Ásta ein fjögurra fulltrúa hópsins í framkvæmdastjórninni. Framkvæmdastjórn IPU hefur umsjón með rekstri samtakanna og er hún skipuð 17 fulltrúum sem kosnir eru til fjögurra ára. Ásta er annar íslenski þingmaðurinn sem nær kjöri í framkvæmdastjóri IPU, en á árunum 1994-1998 sat Geir H. Haarde í stjórninni.

IPU var stofnað árið 1889 og hefur síðan verið stærsti vettvangur alþjóðasamstarfs þjóðþinga. Flest þjóðþing heims eiga aðild að sambandinu, 147 ríki auk sjö aukaaðildarríkja. Alþingi hefur átt aðild að sambandinu frá árinu 1951. Markmið sambandsins er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóðþinga og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.

Helstu mál sem rædd voru á þinginu í Höfðaborg voru þróunaraðstoð, atvinnumál innflytjenda, mansal, mannréttindi, konur og fjölmiðlar og heilsa ungbarna og mæðra. Enn fremur fór fram umræða um baráttuna gegn fátækt í heiminum.