9.3.2006

Um alþjóðlegt samstarf alþingismanna og skráningu fjarvista

Í tilefni af fréttaumfjöllun um utanferðir alþingismanna vilja formenn þingflokka taka fram eftirfarandi:

Alþjóðlegt samstarf er hluti af starfi alþingismanna. Gert er ráð fyrir slíku samstarfi í þingsköpum Alþingis og til þess er veitt fé á fjárlögum. Fari þingmaður á fundi erlendis ber honum að tilkynna um fjarvist sína til skrifstofu Alþingis og liggur fjarvistaskrá frammi á hverjum þingfundi.

Fjarvistaskráning hefur ekki áhrif á launagreiðslur til þingmanna.

Ef fjarvist vegna funda erlendis er á vegum Alþingis og nær yfir fimm þingfundadaga eða lengur getur alþingismaður tekið inn varamann en haldið óskertum launum á meðan. Varamaður situr skemmst tvær vikur á Alþingi. Þegar þingmenn taka þátt skemmri fundum, eða fundum sem eru ekki á vegum þingsins, skrá þeir sig hins vegar með fjarvist eins og gildir um fjarvistir þingmanna vegna fundahalda í kjördæmi eða annars staðar hér á landi.

Á Alþingi, 9. mars 2006.

Guðlaugur Þór Þórðarson,
starf. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Margrét Frímannsdóttir,
formaður þingflokks Samfylkingarinnar.

Magnús Stefánsson,
starf. formaður þingflokks Framsóknarflokksins.

Ögmundur Jónasson,
formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Magnús Þór Hafsteinsson,
formaður þingflokks Frjálslynda flokksins.