6.6.2013

Minningarorð um Hreggvið Jónsson, fyrrverandi alþingismann

Starfsaldursforseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, flutti minningarorð um Hreggvið Jónsson, fyrrverandi alþingismann, á þingsetningarfundi 6. júní 2013.

Hreggviður Jónsson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi alþingismaður, lést á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum á skírdag, hinn 25. mars sl. Hann var á sjötugasta aldursári.

Hreggviður Jónsson var fæddur í Reykjavík 26. desember 1943. Foreldrar hans voru Jón Guðjónsson vélstjóri og kona hans Kristín Pálsdóttir húsmóðir.

Hreggviður lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1965 og hóf þá nám í lögfræði við Háskóla Íslands, en hvarf síðar frá námi. Hann var þá þegar orðinn virkur þátttakandi í félagslífi og á vinnumarkaði sem framkvæmdastjóri ýmissa félagasamtaka. Frá árinu 1981 og fram til þess tíma að hann var kjörinn alþingismaður 1987 var hann framkvæmdastjóri Skálatúnsheimilisins. Eftir að þingsetu lauk 1991 starfaði Hreggviður við heildsölu meðan starfskraftar leyfðu en hann bjó við allnokkra vanheilsu á seinni árum.

Lengst og mest léði Hreggviður Jónsson krafta sína íþróttahreyfingunni, knattspyrnu og skíðaíþróttum, svo og íslensku ólympíunefndinni. Hann var einlægur bindindismaður og lét áfengisvarnamál til sín taka. Umhverfismál og ferðamál voru honum hjartfólgin og sjálfur var hann mikill útivistarmaður.

Hreggviður varð snemma handgenginn Albert Guðmundssyni innan íþróttahreyfingarinnar og í stjórnmálum og er Albert klauf sig frá Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar 1987 fylgdi Hreggviður honum að málum og varð þingmaður Borgaraflokksins í fjögur ár, sat á fjórum þingum alls. Eftir brotthvarf Alberts úr stjórnmálum klofnaði Borgaraflokkurinn og stofnaði Hreggviður þá þingflokk, Frjálslynda hægri flokkinn, ásamt Inga Birni Albertssyni, en síðar gengu þeir til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Hreggviður náði ekki þingsæti við kosningarnar 1991.

Eins og heyra má kom Hreggviður Jónsson víða við á starfsævi sinni, var þjóðþekktur maður og vinmargur. Hann vildi hafa líf og fjör í kringum sig og umfram allt láta gott af sér leiða. Þótt hann hyrfi af vettvangi stjórnmála á góðum aldri lét hann að sér kveða og skrifaði meðal annars greinar í blöð sem eftir var tekið fyrir skýran málflutning. Hreggviður skilur eftir sig góðar minningar hjá þeim sem með honum störfuðu á Alþingi.