20.1.2015

Minningarorð um Tómas Árnason, fyrrverandi alþingismann

Minningarorð forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, á þingfundi 20. jan. 2015, um Tómas Árnason, fyrrverandi alþingismann.

Tómas Árnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á aðfangadag síðastliðinn á 92. aldursári.
Tómas Árnason var fæddur á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð 21. júlí 1923. 

Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Þorvarðardóttir húsmóðir og Árni Vilhjálmsson útvegsbóndi, síðar erindreki Fiskifélags Íslands.

Tómas hóf 16 ára gamall nám í Alþýðuskólanum á Eiðum en lauk svo stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1945 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands fjórum árum síðar, 1949. Hann var við framhaldsnám við Harvard Law School í Bandaríkjunum 1951-1952 og lauk þar prófi í alþjóðaverslunarrétti. Héraðsdómslögmaður varð hann 1950 og hæstaréttarlögmaður 1964.

Á mótunarárum og fram eftir aldri var Tómas kappsamur íþróttamaður og alla ævi, fram á efstu ár, naut hann útivistar og hollrar hreyfingar.

Að skólanámi loknu hér heima, árið 1949, hóf Tómas að reka málflutningsstofu á Akureyri en var jafnframt stundakennari við gagnfræðaskólann þar, erindreki framsóknarfélaganna og blaðamaður við Dag. Árið 1953 fluttist Tómas til Reykjavíkur og varð forstöðumaður varnarmáladeildar utanríkisráðuneytisins við stofnun hennar og gegndi því starfi til 1960. Hann hvarf þá á ný að málflutningsstörfum, en varð enn fremur um fjögurra ára skeið framkvæmdastjóri Tímans. Í kjölfar stjórnarskipta og nýrrar skipanar byggðamála var Tómas einn af framkvæmdastjórum Framkvæmdastofnunar ríkisins, frá 1972 til 1978 og á ný frá 1983 til ársloka 1984 er hann var skipaður bankastjóri við Seðlabanka Íslands. Því embætti gegndi hann til starfsloka 1993.

Tómas Árnason varð á ungum aldri liðsmaður Framsóknarflokksins eins og frændur hans margir á Austurlandi þar sem vígi flokksins var hvað sterkast. Hann varð starfsmaður flokksins á Akureyri og í framboði fyrir hann í Eyjafjarðarsýslu í alþingiskosningum 1953, varð varaþingmaður og tók fyrst sæti sem slíkur á Alþingi í ársbyrjun 1956. Hann var að því leyti aldursforseti í hópi fyrrverandi alþingismanna við andlát sitt. Hann var síðan í framboði til þings á heimaslóðum, í Norður-Múlasýslu og í Austurlandskjördæmi, og sat alloft á þingi sem varaþingmaður, uns hann hlaut fast sæti í kosningunum 1974. Hann sat á Alþingi í rösk 10 ár, til ársloka 1984, en samtals tók hann sæti á 22 þingum.

Á meðan Tómas Árnason sat á Alþingi, og raunar nokkru áður, var hann forustumaður í flokki sínum og varð ráðherra á hans vegum, fyrst fjármálaráðherra 1978-1979 og síðan viðskiptaráðherra 1980-1983.
Á löngum embættis- og stjórnmálaferli sínum átti Tómas sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum til undirbúnings nýrri löggjöf eða öðrum verkefnum og sat oft fundi og ráðstefnur erlendis og talaði máli Íslendinga. Á vettvangi Alþingis fékkst hann mest við efnahags- og atvinnumál, hagsmunamál landsbyggðarinnar og ekki hvað síst utanríkis- og varnarmál. Hann var formaður utanríkismálanefndar þegar hann lét af þingmennsku.

Tómas Árnason var farsæll maður í störfum og vildi hvarvetna leggja lið framfaramálum. Hann átti traustan frændgarð austanlands og djúpar rætur þar, og unni og kunni vel sögu fólksins á þeim slóðum, og bar hag þess fyrir brjósti. Hann var lipur í samskiptum, háttvís og hafði ríka kímnigáfu. Af þessum ástæðum, svo og fyrir drengskap sinn og skyldurækni, voru Tómasi falin mikilvæg störf um sína daga, bæði sem kjörnum fulltrúa og skipuðum embættismanni. Öllu því skilaði hann vel.

Ég bið þingheim að minnast Tómasar Árnasonar með því að rísa úr sætum.