5.11.2012

Minningarorð um Jóhann Einvarðsson, fyrrverandi alþingismann

Jóhann Einvarðsson, fyrrverandi alþingismaður og framkvæmdastjóri, lést sl. laugardagskvöld, 3. nóvember, á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík. Hann var 74 ára að aldri.

Jóhann Sigurður Einvarðsson var fæddur í Reykjavík 10. ágúst 1938. Foreldrar hans voru hjónin Einvarður Hallvarðsson, starfsmannastjóri Landsbanka Íslands, og Vigdís Jóhannsdóttir húsmóðir.

Að loknu prófi við Samvinnuskólann árið 1958 hóf Jóhann störf í fjármálaráðuneytinu og starfaði þar þangað til hann var ráðinn bæjarstjóri á Ísafirði árið 1966, aðeins 28 ára gamall. Að loknu einu kjörtímabili þar var hann bæjarstjóri í Keflavík 1970–1980.

Við alþingiskosningarnar í desember 1979 var Jóhann valinn, sem vinsæll bæjarstjóri, til að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjaneskjördæmi og vann ágætan sigur. Sat hann á Alþingi það kjörtímabil en tapaði þingsæti sínu í kosningunum 1983. Fjórum árum síðar var hann kjörinn á ný til þings, þá í 2. sæti listans sem var undir forustu formanns flokksins. Flokkurinn naut þá meðbyrs í kjördæminu en jafnframt jók breytt kosningakerfi hlut Reyknesinga á Alþingi. Jóhann náði ekki kjöri 1991, en var varaþingmaður. Þegar Steingrímur Hermannsson sagði af sér þingmennsku í apríllok 1994 tók Jóhann sæti hans og sat fram að þingkosningunum 1995. Alls sat hann á 11 þingum.

Meðan Jóhann var utan þings 1983-1987 var hann aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Eftir að þingmennsku hans lauk var hann framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurnesja og Heilsugæslustöðvar Suðurnesja til loka starfsferils síns.

Á Alþingi fékkst Jóhann einkum við sveitarstjórnarmál og atvinnumál en var einnig formaður utanríkismálanefndar um tíma. Hann tók þátt í alþjóðastarfi þingmanna, mest í þingmannasamtökum NATÓ.

Jóhann var félagslyndur maður og valdist til stjórnarstarfa í ýmsum samtökum, ekki hvað síst í samtökum sveitarfélaga og fyrirtækja á þeirra vegum. Þá var hann enn fremur í forustu samtaka handknattleiksmanna um nokkurra ára skeið. Árin 1985–1987 sat hann í bankaráði Útvegsbanka Íslands.

Jóhann Einvarðsson var margreyndur maður er hann settist á þing, rösklega fertugur að aldri, bæði úr Stjórnarráðinu og af 14 ára starfi sem bæjarstjóri, á svo ólíkum stöðum sem Ísafirði og Keflavík. Hann sinnti kjördæmi sínu vel. Jóhann var samviskusamur maður og vandvirkur í hvívetna, og lipurmenni og prúðmenni í samstarfi. Hann var hógvær í málflutningi, maður sátta og samkomulags. Fyrir þessa eðliskosti, ekki síður en fyrir stefnumál sín, naut hann trausts og trúnaðar flokksmanna sinna og kjósenda.