11.9.2012

Minningarorð um Þórarin Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismann

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis flutti minningarorð um Þórarin Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismann, á þingfundi 11. september 2012.

Nú verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

Þórarinn Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður og bústjóri, lést 20. júlí síðastliðinn, nær 89 ára að aldri.

Þórarinn var fæddur í Vestmannaeyjum 26. júlí 1923. Foreldrar hans voru hjónin Sigurjón Árnason, bóndi og trésmiður í Pétursey í Mýrdal, og Sigríður Kristjánsdóttir, húsfreyja þar. Á æskuárum fékkst Þórarinn við bústörf í föðurgarði og var til sjós en lauk um tvítugt búfræðiprófi á Hvanneyri. Hann rak síðar um árabil viðgerðaverkstæði í Pétursey og fékkst við fólks- og vöruflutninga á eigin bifreiðum. Er stofnað var til tilraunabús í Laugardælum árið 1952 var Þórarinn Sigurjónsson ráðinn bústjóri þar og því starfi gegndi hann í aldarfjórðung við góðan orðstír. Hann var samvinnumaður, studdi landvernd og hvers kyns framfarir í landbúnaði og þótti bóngóður svo að af bar. Samhliða störfum sínum á tilraunabúinu hafði Þórarinn með höndum trúnaðarstöður í félags- og atvinnulífi sunnanlands, þar á meðal fyrir Hraungerðishrepp og kirkjusókn sína. Hann var m.a. í stjórn Kaupfélags Árnesinga 1962−1992, formaður frá 1966. Samhliða því sat hann í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga 1968−1992.

Þórarinn gekk ungur til liðs við Framsóknarflokkinn og komst snemma í forustusveit hans á Suðurlandi. Þegar efstu menn á lista flokksins í kjördæminu hurfu af þingi 1974 varð góð samstaða um að Þórarinn Sigurjónsson skipaði efsta sæti listans við alþingiskosningarnar það ár, og það gerði hann fram til 1987 er hann kaus að draga sig í hlé frá þingmennsku. Hann sat á 15 þingum alls. Hann átti sæti í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1980−1983. Lengi mun hans minnst fyrir átta ára formennsku í Þingvallanefnd á 9. áratug síðustu aldar og fyrir farsælt samstarf hans, skilning og öflugan stuðning við þá vísindamenn sem unnu að merkum rannsóknum á Þingvallavatni.

Á vettvangi Alþingis sat Þórarinn allan sinn þingferil í fjárveitinganefnd og sinnti því starfi af mikilli trúmennsku. Hann tók jafnframt þátt í alþjóðasamstarfi þingmanna.

Þórarinn Sigurjónsson var rúmlega fimmtugur þegar hann settist á þing 1974, reyndur maður með traust flokksmanna og kjósenda að baki. Hann var hægur í fasi og stofnaði ekki til átaka en freistaði þess fremur að ná fram málum, sem hann bar fyrir brjósti, með prúðmennsku og lagni. Honum varð vel ágengt við það. Hann var ágætur ræðumaður en fór ekki í ræðustólinn nema rík þörf væri á því. Umfram allt var Þórarinn skyldurækinn og samviskusamur maður, en líka glaðvær og hlýr í viðmóti.

Ég bið þingheim að minnast Þórarins Sigurjónssonar með því að rísa úr sætum.