9.3.2018

Upplýsingar um breytilegar kostnaðargreiðslur til þingmanna

Í dag hefst birting á upplýsingum um breytilegar kostnaðar­greiðslur til þing­manna á vefsíðunni Laun og kostnaðargreiðslur þingmanna. Breytilegar kostnaðargreiðslur eru að stærstum hluta endurgreiddur ferða- og gistikostnaður innan lands sem þingmenn hafa lagt út fyrir (akstur á eigin bifreið, bílaleigubíll og flug o.fl.) og kostnaður vegna ferða á vegum Alþingis erlendis.

Þessar fyrstu upplýsingar um breytilegar kostnaðargreiðslur taka til janúarmánuðar 2018. Framvegis verður miðað við að birta kostnaðargreiðslur 25. hvers mánaðar fyrir undangenginn mánuð. Þannig verða kostnaðargreiðslur fyrir febrúar birtar síðar í þessum mánuði. Hafa þarf í huga að fjárhæðir miðast við hvenær reikningar eru bókaðir á skrifstofu Alþingis og kunna einhverjir reikningar fyrir útgjöld sem stofnað var til síðari hluta árs 2017 að hafa borist í janúar og bókast þá á þann mánuð. Fyrirhugað er að birta sem allra fyrst upplýsingar um kostnaðargreiðslur um áratug aftur í tímann og verður miðað við birtingu frá alþingiskosningum 2007. Nokkur álitaefni þarf að útkljá áður en til þeirrar birtingar kemur og hefur Alþingi leitað samráðs við Persónuvernd um sum þeirra.

Ýmislegt sem varðar framsetningu á vefsíðunni er ekki að fullu frágengið og eru notendur beðnir að hafa það í huga. Þannig er t.d. tilefni einstakra ferða ekki birt nú en ætlunin er að gera það síðar þegar vinnu við öll tæknileg atriði er lokið og síðan komin í endanlegan búning.