Stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu þegar alþingismenn eiga í hlut

 

MARKMIÐ

Alþingismenn leggja sig fram um að virða hver annan óháð skoðunum og bakgrunni. Alþingi er jafnframt vinnustaður starfsfólks Alþingis og þangað á annað fólk einnig erindi. Á Alþingi skal markvisst unnið að því að ekkert umburðarlyndi ríki fyrir einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu í hvaða mæli eða mynd sem hún birtist.

Alþingismenn ætla sem þjóðkjörnir fulltrúar að leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan, og hvarvetna þar sem þingmenn sinna störfum sínum, þar sem hafnað er hvers konar einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu. Alþingismenn ætla ekki að sýna öðrum þingmönnum, starfsfólki þingsins eða gestum slíkt hátterni, sbr. d-lið 1. mgr. 5. gr. og 8. gr. siðareglna fyrir alþingismenn.

Áætlun þessi er gerð á grundvelli 88. gr. laga um þingsköp Alþingis, sbr. einnig 8. gr. sömu laga, og siðareglna fyrir alþingismenn samkvæmt ályktunum Alþingis nr. 23/145 frá 2016 og nr. 18/148 frá 2018. Áætlunin nær yfir alþingismenn við opinbera framgöngu þeirra sem snertir skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa, í samskiptum þeirra innbyrðis og í samskiptum við starfsfólk Alþingis, þ.m.t. starfsfólk þingflokka og við móttöku gesta, á fundum á Alþingi eða í ferðum eða á viðburðum á vegum þess. Áætlunin nær jafnframt til samskipta á netinu.

Þingflokkar skulu tilnefna þingflokksformann eða annan trúnaðarmann þingflokks sem ber ábyrgð á að brugðist sé við tilkynningum og ábendingum um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og aðra vanvirðandi framkomu í samræmi við áætlun þessa. Trúnaðarmaður þingflokks ber sömu skyldur og þingflokksformaður samkvæmt áætlun þessari. Upplýsingar um tilnefningu þingflokks skal birta á vef Alþingis.

Forseti Alþingis og skrifstofustjóri Alþingis í umboði hans skulu vinna að innleiðingu og eftirfylgni stefnu og viðbragðsáætlunar gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu þegar alþingismenn eiga í hlut.

FORVARNIR OG FYRIRBYGGJANDI AÐGERÐIR

Allir alþingismenn ætla að leggja sig fram um að skapa heilbrigt og öruggt starfsumhverfi á Alþingi þar sem hvers konar einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu er hafnað.

 1. Alþingismenn ætla að leggja sig fram um að skapa slíkt starfsumhverfi að þeim og öðrum sem þeir eiga samskipti við sé gert kleift að sinna störfum sínum og erindum án þess að eiga á hættu að þurfa að þola einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni eða aðra vanvirðandi framkomu.
 2. Tryggt skal að vinnuaðstæður lágmarki hættu á einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu. Hugað skal sérstaklega að aðstæðum á sameiginlegum svæðum. Markvisst skal draga úr hættu á að aðstæður skapist sem leitt geti til eineltis, kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni eða annarrar vanvirðandi framkomu á Alþingi. Skrifstofustjóri Alþingis tryggir að reglulega fari fram áhættumat á Alþingi sem vinnustað skv. 4. gr. reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, og að gerð sé áætlun í samræmi við niðurstöður matsins.
 3. Skrifstofa Alþingis sendir alþingismönnum áætlun þessa til kynningar við upphaf hvers kjörtímabils þegar nýkjörið þing hefur komið saman. Þingflokksformenn bera ábyrgð á að áætlunin sé kynnt þingflokkum. Þá skal hún sérstaklega kynnt nýjum alþingismönnum og varaþingmönnum sem taka sæti á þingi. Skrifstofustjóri Alþingis ber ábyrgð á að kynna starfsfólki Alþingis áætlunina og skal hún reglulega rifjuð upp á starfsmannafundum. Áætlunin skal vera aðgengileg á vef Alþingis.
 4. Forseti Alþingis skal tryggja að alþingismenn fái reglulega fræðslu um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og aðra vanvirðandi framkomu, einkenni jákvæðrar vinnustaðarmenningar og markmið þessarar áætlunar. Í slíkri fræðslu skal sérstök áhersla lögð á að þingmenn séu upplýstir um ólíka stöðu kjörinna fulltrúa og starfsfólks Alþingis. Þá skal fjallað um þau grunngildi sem virða ber í samskiptum á Alþingi í þeim tilgangi að skapa starfsumhverfi þar sem einelti, áreitni og vanvirðandi framkoma er ekki liðin.
 5. Forseti Alþingis skal tryggja að þingflokksformenn, trúnaðarmenn samkvæmt áætlun þessari, skrifstofustjóri Alþingis og aðrir stjórnendur hljóti þjálfun í móttöku tilkynninga og fræðslu um þá verkferla og þau úrræði sem áætlunin felur í sér svo að unnt sé að veita nauðsynlegan stuðning.
 6. Forseti Alþingis skal sjá til þess að þegar þess er óskað standi til boða ráðgjöf um einstök álitaefni sem varða efni og framkvæmd áætlunarinnar af hálfu sérfræðinga sem hafa viðeigandi menntun og reynslu.
 7. Forseti Alþingis skal reglulega láta kanna viðhorf til starfsumhverfis og vinnustaðarmenningar á Alþingi og leggja sérstaka áherslu á einelti og kynferðislega og kynbundna áreitni svo að greina megi umfang slíkrar hegðunar og grípa til ráðstafana, svo sem með frekari kynningu á áætlun þessari.

VERKLAG OG MÁLSMEÐFERÐ

Megintilgangur málsmeðferðar samkvæmt viðbragðsáætlun þessari er að leiða í ljós hvort hátterni alþingismanns fellur undir einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni eða aðra vanvirðandi framkomu og grípa til viðeigandi ráðstafana.

Í ljósi þess að alþingismenn verða ekki beittir starfstengdum viðurlögum, réttindaskerðingu af neinu tagi eða þvingunum til að knýja þá til að taka þátt í meðferð máls er byggt á því að leyst verði úr einstökum málum með samtölum, aðstoð sérfræðinga eftir atvikum og samkomulagi um lausn og eftirfylgni. Um leið verði sýnd varfærni og hugað að líðan og vilja þolenda.

Við málsmeðferð tilkynninga er eftirfarandi verklag haft til hliðsjónar. Það er ekki tæmandi. Um er að ræða almenn viðmið sem skoða verður með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni.

I. Viðrun máls.

Tilgangur viðrunar er að gefa einstaklingi kost á að ræða upplifun sína í öruggum aðstæðum óháð því hvort formleg tilkynning verður lögð fram eða ekki.

Viðrun er ætluð til þess að einstaklingur fái upplýsingar frá viðbragðsaðila um hvað felist í skilgreiningu eineltis, kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni og annarrar vanvirðandi framkomu, hvað felist í verklagi og málsmeðferð tilkynninga, um það hvaða aðilar komi að slíkri vinnu og um fleira, sbr. kafla II og III. Eftir viðrun er hægt að taka upplýsta ákvörðun um það hvort viðkomandi vilji halda áfram með málið og með þeim stuðningi sem viðkomandi kýs eða þarf á að halda. Ef einungis er um viðrun að ræða eða ef óskað er eftir aðkomu annarra án þess að lögð verði fram formleg tilkynning er viðkomandi boðin aðstoð og ráðgjöf.

II. Atvik milli alþingismanna og atvik milli alþingismanna og starfsfólks Alþingis eða gesta.

1. Tilkynning.

 • Alþingismaður sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni eða annarri vanvirðandi framkomu getur komið tilkynningu sinni á framfæri við þingflokksformann sinn eða annan trúnaðarmann sem þingflokkur hans hefur tilnefnt eða skrifstofustjóra Alþingis.
 • Alþingismaður utan flokka getur komið tilkynningu á framfæri við trúnaðarmann sinn, sem kemur henni áleiðis, eða snúið sér beint til skrifstofustjóra Alþingis.
 • Starfsfólk Alþingis, þ.m.t. starfsfólk þingflokka, getur komið tilkynningu sinni á framfæri við næsta stjórnanda, sem skal koma henni áleiðis til skrifstofustjóra Alþingis, eða snúið sér beint til skrifstofustjóra.
 • Gestir og aðrir sem alþingismenn eiga í samskiptum við á vettvangi þingstarfa geta komið tilkynningu sinni á framfæri við skrifstofustjóra Alþingis.

2. Viðbrögð.

 • Bregðast skal skjótt við tilkynningu. Móttakandi tilkynningar skal upplýsa forseta Alþingis, skrifstofustjóra Alþingis og þingflokksformann eða trúnaðarmann meints geranda um hana.
 • Samkvæmt almennum hegningarlögum getur tiltekin háttsemi sem viðbragðsáætlunin nær til verið refsiverð, eða tilraun til slíkrar háttsemi, t.d. ef um er að ræða kynferðisbrot, þar á meðal kynferðislega áreitni, eða líkamsmeiðingar, frelsissviptingu eða hótun um ofbeldi. Berist móttakendum alvarleg tilkynning, þar sem grunur leikur á að um refsivert athæfi sé að ræða, skal leiðbeina þolanda um kæru til lögreglu. Á meðan á rannsókn lögreglu stendur getur þurft að grípa til ráðstafana á vinnustaðnum, t.d. takmarka samskipti eða gera breytingar á vinnusvæði og bjóða fram ráðgjöf og annan stuðning eftir því sem við á. Ef þolandi ákveður að kæra ekki til lögreglu en óskar eftir umfjöllun samkvæmt viðbragðsáætluninni skal halda áfram ferlinu. Sömuleiðis getur þolandi óskað eftir því að umfjöllun samkvæmt viðbragðsáætluninni verði fram haldið á meðan á meðferð kæru stendur, enda sé rannsóknarhagsmunum ekki stefnt í hættu.

3. Ráðgjöf, stuðningur og sáttamiðlun.

 • Aðilum máls skal boðin ráðgjöf sérfræðinga á vegum Alþingis, saman eða hvorum í sínu lagi.
 • Ráðgjafi skal leggja mat á aðstæður, afla upplýsinga hjá þeim sem kunna að hafa vitneskju um atvik og annarra gagna eftir því sem þörf er á og huga að skráningu atvikalýsingar. Falli atvik undir viðbragðsáætlunina stendur sáttamiðlun sem ráðgjafi leiðir málsaðilum til boða. Þar er kannað hvort hægt er að ná sátt um viðeigandi aðgerðir, svo sem að tiltekin hegðun verði stöðvuð ef hún er enn höfð í frammi, að komið verði í veg fyrir að hún endurtaki sig og að aðstæður á vinnustað skapi ekki áframhaldandi hættu á slíkri hegðun. Aðgerðir geta m.a. verið leiðsögn handa þeim sem tilkynning beinist að, takmörkun á samskiptum aðila eða breyting á skipulagi starfa, svo sem að haga þingstörfum þannig að aðilar þurfi ekki að eiga nema lágmarkssamskipti. Jafnvel þótt ekki verði af sáttamiðlun skal þolanda boðin ráðgjöf og annar stuðningur eftir því sem við á.
 • Ráðgjafi skal upplýsa forseta Alþingis og skrifstofustjóra Alþingis um stöðu málsins og framgang sáttamiðlunar.
 • Sáttamiðlun getur leitt til samkomulags um lyktir máls.

4. Samtal þolanda og meints geranda ásamt yfirstjórn og þingflokksformönnum.

 • Ef sáttamiðlun reynist árangurslaus eða ef hún er ekki reynd skal forseti Alþingis og skrifstofustjóri ásamt viðkomandi þingflokksformönnum eða trúnaðarmönnum bjóða þolanda og meintum geranda að eiga fund þar sem leitað er lausna.
 • Hugnist þolanda ekki að koma á fund með þeim sem tilkynning beinist að er það hlutverk forseta Alþingis og skrifstofustjóra að fá þá afstöðu fram.

5. Samkomulag.

 • Máli getur lokið með samkomulagi um aðgerðir og eftirfylgni þeirra.

6. Eftirfylgni.

 • Eftirfylgni getur falist í stuðningi, breytingum á vinnustað eða vinnuskipulagi eða því að fylgst sé með samskiptum, andlegri líðan og gengi, m.a. í formi samtala. Ef þörf er á frekari eftirfylgni, svo sem sálfræðimeðferð eða annars konar stuðningi eða ráðgjöf, stendur hún til boða.
 • Mat á árangri aðgerða skal tímasett og þörf á frekari aðgerðum metin.

7. Máli vísað til forsætisnefndar til meðferðar samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.

 • Náist ekki samkomulag um lyktir máls, eftir atvikum með aðstoð ráðgjafa og sáttamiðlun, kemur til greina að forseti Alþingis, að fenginni afstöðu þolanda, vísi málinu í opinberan siðaregluferil.
 • Áður en forseti Alþingis gerir slíkt skal þingflokksformanni eða trúnaðarmanni þingflokks eða alþingismanns utan flokka gert viðvart.

8. Málalok.

 • Viðbragðsaðilar skulu tryggja að þegar máli lýkur séu málsaðilar upplýstir um lyktir þess.

9. Vistun gagna.

 • Við meðferð eineltis- og áreitnismála samkvæmt áætlun þessari skal sérstaklega huga að vistun allra gagna, þ.m.t. myndefnis, tölvupósta, skilaboða og fundargerða.

10. Ráðgjöf skrifstofustjóra Alþingis.

 • Skrifstofustjóri Alþingis skal veita ráðgjöf við úrlausn einstakra mála, útvega þolendum nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, bjóða sáttamiðlun með því að útvega utanaðkomandi sérfræðinga og sjá til þess að gögn máls séu varðveitt.

III. Atvik milli alþingismanna í sama þingflokki.

Alþingismaður sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni eða annarri vanvirðandi framkomu af hálfu þingmanns í sama þingflokki getur komið tilkynningu sinni á framfæri við þingflokksformann eða annan trúnaðarmann sem þingflokkurinn hefur tilnefnt. Athugun, málsmeðferð, málalok og eftirfylgni slíkra mála getur verið í samræmi við reglur sem þingflokkurinn hefur sett ef þolandi lagði tilkynningu sína ekki fram á grundvelli I. kafla. Ráðgjöf og stuðningur við þolanda á vegum skrifstofu Alþingis stendur til boða allt ferlið.

IV. Trúnaður af hálfu viðbragðsaðila.

Við meðferð máls ber að sýna varfærni og nærgætni með einkahagi hlutaðeigandi í huga. Aðilum er ávallt heimilt að hafa trúnaðarmann með sér í samtölum um mál sitt eða utanaðkomandi sérfræðing.

Trúnaður ríkir um meðferð mála. Upplýsingar um mál verða ekki gerðar opinberar af hálfu viðbragðsaðila. Málsgögn skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Málsaðilum er óheimilt að opinbera gögn sem þeir fá afhent samkvæmt viðbragðsáætluninni.

V. Meðferð tilkynninga sem beinast að viðbragðsaðilum.

Beinist tilkynning að meintu einelti eða áreitni af hálfu þingflokksformanns, trúnaðarmanns þingflokks, forseta Alþingis eða skrifstofustjóra Alþingis skulu þau ekki koma að úrlausn málsins samkvæmt viðbragðsáætluninni.

 • Þolandi getur leitað til varaformanns þingflokks með tilkynningu sína ef hún beinist að meintu einelti eða áreitni af hálfu þingflokksformanns sem þingflokkurinn hefur tilnefnt sem viðbragðsaðila.
 • Þolandi getur leitað til þingflokksformanns með tilkynningu sína ef hún beinist að meintu einelti eða áreitni af hálfu trúnaðarmanns sem þingflokkur hefur tilnefnt sem viðbragðsaðila.
 • Þolandi getur leitað til 1. varaforseta með tilkynningu sína ef hún beinist að meintu einelti eða áreitni af hálfu forseta Alþingis.
 • Alþingismaður getur leitað til forseta Alþingis með tilkynningu sína ef hún beinist að meintu einelti eða áreitni af hálfu skrifstofustjóra Alþingis. Um tilkynningar starfsfólks vegna meints eineltis eða áreitni skrifstofustjóra gildir áætlun skrifstofu Alþingis um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi.

  Viðbragsáætlun gegn áreitni og einelti þegar þingmenn eiga í hlut

SKILGREININGAR

Stefna og viðbragðsáætlun þessi byggist á skilgreiningum í reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi ávinnustöðum, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Á vef Vinnueftirlitsins má finna dæmi um birtingarmyndir eineltis, kynbundinnar áreitni og kynferðislegrar áreitni.

Einelti
Síendurtekin hegðun, sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynbundin áreitni
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og líkamleg.

Önnur vanvirðandi framkoma
Getur m.a. verið önnur lítilsvirðandi framkoma, svo sem snerting sem þykir nærgöngul eða óviðeigandi eða ofbeldi, þ.e. hvers kyns hegðun sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

 

Samþykkt af forsætisnefnd Alþingis með vísan til 88. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sbr. einnig 8. gr. siðareglna fyrir alþingismenn, að höfðu samráði við þingflokksformenn, 30. maí 2023.