Um framtíðarnefnd

Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í þingsköpum var kosin framtíðarnefnd sem starfar til loka kjörtímabilsins. Nefndin skal m.a. fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu. Ekki skal vísa þingmálum til nefndarinnar en öðrum nefndum er heimilt að óska eftir áliti hennar á þingmálum sem þær hafa til meðferðar.

Nefndin skal skipuð ellefu þingmönnum og skulu allir þingflokkar eiga fulltrúa í henni. Að lágmarki skulu fimm þingmenn úr þingflokkum stjórnarandstöðu eiga sæti í nefndinni og skulu þingmenn úr röðum stjórnarliða og stjórnarandstæðinga gegna formennsku og varaformennsku á víxl eitt ár í senn. Seta þingmanns í framtíðarnefnd skal ekki koma í veg fyrir að hann sitji jafnframt í allt að tveimur fastanefndum, sbr. 5. málsl. 1. mgr. 14. gr.

Um nefndina skal að öðru leyti fara eins og um fastanefndir eftir því sem við getur átt. Forseta er heimilt að setja nánari reglur um störf, skipan og sérstöðu framtíðarnefndar.