Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Vinnuhópnum er ætlað að taka saman upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og reynsluna hér á landi og í nágrannalöndunum. Enn fremur er ætlunin að kanna hvort stytta megi upphafstíma atkvæðagreiðslunnar sem tengist tímalínu kosningarinnar sem hópurinn vinnur einnig að. Þá verður könnuð tölfræði undangenginna kosninga um komu kjósenda til sýslumanna (kjörstjóra innanlands) svo að sjá megi hvenær álag vegna atkvæðagreiðslunnar er mest. Sérstaklega á vinnuhópurinn að kanna kosti og galla rafrænnar kjörskrárgerðar og leggja fram tillögur til úrbóta við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 8 vikum fyrir kjördag og stendur fram á kjördag. Við framkvæmd hennar reynir á ólík atriði eftir því hvort hún fer fram innanlands eða erlendis.

Atkvæðagreiðslan innanlands.

Hér á landi fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram hjá sýslumönnum (sem kjörstjórum) og á þeirra ábyrgð. 

  • Atkvæðagreiðslan fer fram í aðalskrifstofu þeirra, útibúi eða á sérstökum kjörstað sem þeir ákveða í umdæmi sínu. Einnig er hægt að greiða atkvæði hjá hreppstjórum þar sem þeir starfa enn í umboði sýslumanna.
  • Enn fremur er heimilt, að vissum skilyrðum uppfylltum, að greiða atkvæði á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum. 
  • Þá er heimilt, að vissum skilyrðum uppfylltum, að greiða atkvæði í heimahúsi geti kjósandi ekki sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar.

Í vinnuhópnum hefur verið rætt hvort fækkun sýslumannsembætta hafi í för með sér verra aðgengi kjósenda að atkvæðagreiðslunni. Því hefur verið svarað til að fækkun þeirra eigi ekki að draga úr aðgengi kjósenda að starfsstöðvum kjörstjóra. Enn fremur hefur verið rætt hvort fleiri staðir en nú eru tilgreindir í lögunum eigi að koma til greina sem kjörstaðir utan kjörfundar. Þá hefur og verið rætt hvort aðrir en sýslumenn eigi enn fremur eða á ábyrgð sýslumanna að geta annast atkvæðagreiðsluna, t.d. starfsfólk sveitarfélaga eins og framkvæmdin er í öðrum norrænum ríkjum. 

Atkvæðagreiðslan erlendis.

Erlendis fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram undir yfirstjórn utanríkisráðuneytisins. Kjörstjórar erlendis eru forstöðumenn sendiráða og sendiræðismenn og starfsmenn þeirra, aðrir sendierindrekar, kjörræðismenn eða sérstakir kjörstjórar. Ýmist er það viðkomandi forstöðumaður eða utanríkisráðuneytið sem ákveður hverjir skuli vera kjörstjórar.

  • Atkvæðagreiðslan fer fram í skrifstofum sendiráða og  sendiræðisskrifstofum.
  • Enn fremur er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins, að greiða atkvæði í skrifstofum kjörræðismanna. 
  • Þá getur utanríkisráðuneytið ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á einhverjum öðrum stað erlendis en að framan greinir. Einkum er þessari heimild beitt þegar ráðuneytið tilnefnir sérstakan kjörstjóra.