Kjörfundur og framkvæmd talningar
Vinnuhópurinn á að yfirfara ákvæði kosningalaga um upphaf og slit kjörfundar og grundvöll undirbúnings talningar fyrir luktum dyrum áður en kjörfundi er lokið.
Gildandi lagaákvæði heimila kjörstjórnum að hefja kjörfund á tímabilinu frá kl. 9 árdegis til kl. 12 á hádegi. Þá eru ýmis tilbrigði í lögunum varðandi heimildir kjörstjórna til að slíta kjörfundi en þó verður að slíta honum eigi síðar en kl. 22 á kjördag. Í eldri kosningalögum voru skýr ákvæði um upphaf kjörfundar; í kaupstöðum skyldi kjörfundur hefjast kl. 10 en annars staðar kl. 12. Á árabilinu 1957 til 1991 varð að slíta kjörfundi eigi síðar en kl. 23. Frá 1991 hefur lokatíminn verið kl. 22.
Eru einhver sjónarmið til staðar sem gefa tilefni til þess að huga að breytingu á upphafi og slitum kjörfundar?
Hagræði getur fylgt því að hefja undirbúning talningar fyrir luktum dyrum. Er þá einkum horft til þess að niðurstaða talningar liggi sem fyrst fyrir að loknum kjörfundi og að dreifa megi betur álagi á starfsfólk við talninguna.