Tímalína í alþingiskosningum

Með tímalínu alþingiskosninga er hér átt við upphafsdag atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og lokadag framboðsfrests stjórnmálasamtaka. Vinnuhópnum er ætlað að kanna hvort tímabært sé að leggja til breytingar á núgildandi lagaákvæðum sem gilt hafa í tæp 30 ár.

Tímalína alls þessa ferlis er nú þessi: 

  • Kjósendur geta greitt stjórnmálasamtökum, sem buðu fram við síðustu alþingiskosningar, atkvæði sitt utan kjörfundar í 56 daga (8 vikur), þar sem þau hafa skráðan listabókstaf. Miðað við sama tímafrest ber innanríkisráðuneytinu að birta auglýsingu um listabókstafi þessara stjórnmálasamtaka. Vilji þessi stjórnmálasamtök bjóða fram aftur þurfa þau einungis að gæta þess að tilkynna framboð sín yfirkjörstjórnum eigi síðar en á hádegi 15 dögum fyrir kjördag.
  • Aftur á móti þurfa ný stjórnmálasamtök, sem ekki hafa skráðan listabókstaf, að tilkynna um fyrirhugað framboð sitt og heiti til innanríkisráðuneytisins og hafa til þess frest eigi síðar en á hádegi 18 dögum fyrir kjördag. Kjósendur sem hyggjast greiða nýjum stjórnmálasamtökum atkvæði sitt geta gert það frá birtingu listabókstafs, sem getur orðið fram að lokum framboðsfrests
  • Framboðsfrestur rennur út 15 dögum fyrir kjördag. 
  • Formlega er kjósendum ekki kunnugt um hvaða stjórnmálasamtök verði í framboði við hverjar alþingiskosningar fyrr en landskjörstjórn hefur birt auglýsingu þar um eigi síðar en 10 dögum fyrir kjördag.

Tímalína í alþingiskosningunum 27. apríl 2013 

Tímalína í alþingiskosningunum 27. apríl 2013.

Kosningatímalína alþingiskosningar

Athugasemdir og ábendingar.

Í kosningum síðustu ára hafa þeim sem annast framkvæmd þeirra margsinnis borist athugasemdir og ábendingar um núgildandi fyrirkomulag. Kjósendur spyrja oft hvaða stjórnmálasamtök séu í kjöri og hverjir séu frambjóðendur þeirra. Fyrstu vikurnar eftir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst er fátt um svör hjá sýslumönnum (kjörstjórum innanlands) og sendiráðum og ræðismönnum (kjörstjórum erlendis). Einu formlegu upplýsingarnar eru um þau stjórnmálasamtök sem buðu fram í síðustu kosningum. 

Í skýrslum sínum vegna alþingiskosninganna 2009 og 2013 gerðu sérfræðinganefndir ÖSE athugasemdir við þau ákvæði í kosningalögunum að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar gæti hafist áður en fyrir lægi hvaða stjórnmálasamtök yrðu í framboði. Sérfræðingar ÖSE bentu jafnframt á að í því gæti falist mismunun því að stjórnmálasamtök sem boðið hefðu fram í síðustu kosningum væru með þekktan listabókstaf allan tímann, sem atkvæðagreiðsla utan kjörfundar færi fram, en stjórnmálasamtökum sem hygðust bjóða fram og hefðu ekki skráðan listabókstaf gætu kjósendur ekki greitt atkvæði sitt fyrr en innanríkisráðuneytið hefði staðfest heiti þeirra og úthlutað þeim listabókstaf og birt um það auglýsingu. 

Þá hefur verið bent á að í nágrannalöndum okkar hefst atkvæðagreiðsla utan kjörfundar ekki fyrr en framboð stjórnmálasamtaka liggur fyrir. Þannig var reglan hér á landi áratugum saman þar til núverandi regluverk komst á fyrir tæpum 30 árum.

Innsendar athugasemdir