Vinnuhópur um endurskoðun kosningalaga

Í ágúst 2016 lauk vinnuhópur, sem forseti Alþingis fól endurskoðun kosningalaga,  störfum sínum, sjá skýrslu vinnuhópsins og drög að frumvarpi  um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis.

Í júní 2014 skipaði forseti Alþingis vinnuhóp til að endurskoða kosningalöggjöfina. Starf hópsins beinist að samræmdum lagabótum við framkvæmd kosningalöggjafarinnar en ekki að heildarendurskoðun kosningalaganna. Stefnt er að því að gera framkvæmd kosninga skilvirkari, skýra betur hlutverk stofnana sem að kosningum koma og endurskoða ákvæði kosningalaga sem valdið hafa ágreiningi og gera önnur skýrari. 

Lögð voru fram til kynningar helstu álitaefni sem til athugunar voru og tók vinnuhópurinn við athugasemdum:

  1. tímalína í alþingiskosningum, einkum samhengið milli þess tíma sem atkvæðagreiðsla utan kjörfundar stendur og lokadags framboðsfrests stjórnmálasamtaka,
  2. stjórnsýsla og framkvæmd alþingiskosninga
  3. hvernig nýta megi nýja tækni við undirbúning framboða stjórnmálasamtaka
  4. kjörskrá
  5. atkvæðagreiðsla utan kjörfundar
  6. kjörfundur og framkvæmd talningar
  7. kosningakærur og meðferð þeirra

AtkvæðakassarAtkvæðakassar fluttir í Ráðhúsið í Reykjavík. ©MBL/Brynjar Gauti.