Verklagsreglur undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa

1.
Hlutverk undirbúningsnefndar.

Undirbúningsnefnd starfar á grundvelli 3. mgr. 1. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og undirbýr rannsókn kjörbréfa, sem fram fer á þingsetningarfundi.

Undirbúningsnefnd fer m.a. yfir gerðabækur landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna, ágreiningsseðla og kosningakærur sem borist hafa dómsmálaráðuneytinu og lagðar hafa verið fyrir Alþingi, sbr. 112. og 118. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

Í undirbúningi rannsóknar getur m.a. falist öflun gagna, veiting andmælaréttar og tillögugerð til kjörbréfanefndar. Skv. 2. mgr. 1. gr. þingskapa prófar kjörbréfanefnd kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna og gerir tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanns telst gild.

2.
Gagna- og upplýsingaöflun.

Undirbúningsnefnd aflar þeirra gagna og upplýsinga sem nauðsynleg eru fyrir verkefni nefndarinnar.

Gagna- og upplýsingaöflun er að jafnaði skrifleg. Getur hún m.a. falið í sér beiðni til kjörstjórna og annarra opinberra aðila um tiltekin gögn eða svör við tilteknum spurningum.

Komi gestir á fundi undirbúningsnefndar er þeim, í upphafi fundar, gerð grein fyrir hlutverki nefndarinnar.

3.
Málsmeðferð kærumála.

Málsmeðferð kosningakæra er hagað í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar, eftir því sem við getur átt.

Undirbúningsnefnd sér til þess að kærumál séu nægilega upplýst, m.a. með gagnaöflun á grundvelli 2. gr.

Kæranda er gefinn kostur á að skýra nánar atriði kæru séu þau óljós. Kæranda er gefinn raunhæfur frestur til að koma skýringum á framfæri, m.t.t. umfangs.

Kæranda er gefinn kostur á að andmæla þeim gögnum sem undirbúningsnefndin aflar á grundvelli 2. gr. sem áhrif geta haft á meðferð kærunnar. Kæranda er gefinn raunhæfur frestur til andmæla, m.t.t. umfangs.

4.
Opnir fundir.

Undirbúningsnefnd getur haldið opna fundi samkvæmt sérstakri ákvörðun þar um.

Undirbúningsnefnd fjallar að jafnaði ekki um málefni einstaklinga á opnum fundum en komi þau til umfjöllunar er gætt að réttaröryggi einstaklinga.

5.
Aðgengi að gögnum.

Gögn undirbúningsnefndar, sem lögð eru fyrir kjörbréfanefnd, skulu gerð aðgengileg öllum þingmönnum svo að þeir geti, hver fyrir sig, tekið ákvörðun sem byggir á öllum gögnum, málefnalegum sjónarmiðum og lögfræðilegum rökum. Gögn skulu gerð aðgengileg jafnóðum svo þingmenn eigi þess kost að kynna sér þau samhliða vinnu undirbúningsnefndar.

Gögn undirbúningsnefndar eru að jafnaði birt opinberlega standi lög eða sérstök þagnarskylda því ekki í vegi. Við matið skal höfð hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012.

6.
Heildarnálgun.

Undirbúningsnefnd nálgast verkefni sitt, þ.m.t. tillögugerð, á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og lögfræðilegs mats.

Vinna undirbúningsnefndar er hvorki bindandi fyrir kjörbréfanefnd né þingmenn sem hafa það stjórnarskrárbundna hlutverk á grundvelli 46. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, að skera úr um hvort þingmenn séu löglega kosnir.

Samþykkt á fundi undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa.
8. október 2021

Staðfest af forseta með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. þingskapa.
12. október 2021