65. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í fjarfundur, föstudaginn 29. maí 2020 kl. 09:22


Mætt:

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (ÞSÆ) formaður, kl. 09:22
Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS) 1. varaformaður, kl. 09:22
Guðmundur Andri Thorsson (GuðmT) 2. varaformaður, kl. 09:31
Brynjar Níelsson (BN), kl. 09:22
Kolbeinn Óttarsson Proppé (KÓP), kl. 09:22
Óli Björn Kárason (ÓBK), kl. 09:22
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (ÞorbG), kl. 09:22
Þorsteinn Sæmundsson (ÞorS), kl. 09:22
Þórunn Egilsdóttir (ÞórE), kl. 09:22

Andrés Ingi Jónsson boðaði forföll.

Nefndarritari: Björn Freyr Björnsson

Fundurinn var fjarfundur og voru allir tengdir fundinum í gegnum fjarfundabúnað, sbr. afbrigði sem veitt voru skv. 95. gr. við 17. og 22. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, á þingfundi 12. mars sl.

Dagskrárliður 1. var haldinn sameiginlega með fjárlaganefnd.

Bókað:

1) Hlutastarfaleiðin: Atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls Kl. 09:22
Á fund nefndarinnar komu Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi, Guðrún Jenný Jónsdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Halldór Guðmundsson. Gestir gerðu grein fyrir skýrslunni og svöruðu spurningum nefndarmanna.

2) 644. mál - upplýsingalög Kl. 10:17
Nefndin ræddi málið.

Framsögumaður málsins lagði til að umfjöllunar nefndarinnar um málið yrði hætt. Var það samþykkt.

Kolbeinn Óttarsson Proppé lagði fram eftirfarandi bókun:
Ýmsar spurningar hafa komið upp við vinnslu 644. máls, frumvarps til laga um breytingu á upplýsingalögum, sem kallar á umfangsmeiri skoðun en færi eru á að fara í nú. Sem framsögumaður málsins legg ég því til, að höfðu samráði við forsætisráðherra, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hætti umfjöllun sinni um málið.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirrituð fagna tillögu framsögumanns um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hætti umfjöllun um frumvarp forsætisráðherra um breytingu á upplýsingalögum. Af greinargerð frumvarpsins má ráða að það hafi verið samið fyrir tilstuðlan Samtaka atvinnulífsins, en í umsagnarferli forsætisráðuneytis í framhaldinu hafi m.a. úrskurðarnefnd um upplýsingamál gert alvarlegar athugasemdir við efni frumvarpsins.
Undirrituð eru ekki sammála framsögumanni um að málið kalli á „umfangsmeiri skoðun“, heldur taka undir þá afstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um að meginákvæði frumvarpsins sé óþarft. Réttara hefði verið ef forsætisráðherra hefði horfið frá framlagningu málsins þegar álit úrskurðarnefndarinnar lá fyrir.
Andrés Ingi Jónsson og Guðmundur Andri Thorsson tóku undir bókunina.

3) Önnur mál Kl. 10:20
Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 10:20