27. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, mánudaginn 9. desember 2019 kl. 10:05


Mætt:

Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS) 1. varaformaður, kl. 10:05
Andrés Ingi Jónsson (AIJ), kl. 10:05
Brynjar Níelsson (BN), kl. 10:05
Guðjón S. Brjánsson (GBr) fyrir Guðmund Andra Thorsson (GuðmT), kl. 10:05
Helgi Hrafn Gunnarsson (HHG) fyrir Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur (ÞSÆ), kl. 10:05
Orri Páll Jóhannsson (OPJ) fyrir Kolbein Óttarsson Proppé (KÓP), kl. 10:05
Óli Björn Kárason (ÓBK), kl. 10:05
Þorsteinn Sæmundsson (ÞorS), kl. 10:05

Þórarinn Ingi Pétursson boðaði forföll.

Nefndarritari: Elín Valdís Þorsteinsdóttir

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 10:05
Fundargerð 23. og 24. fundar voru samþykktar.

2) 139. mál - skipun rannsóknarnefndar til að fara yfir starfshætti í Guðmundar- og Geirfinnsmálum Kl. 10:06
Frestað.

3) 202. mál - þingsköp Alþingis Kl. 10:07
Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram drög að nefndaráliti frá framsögumanni og formanni nefndarinnar, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.

Samþykkt að afgreiða málið frá nefndinni og allir skrifa undir nefndarálit auk Þóarins Inga Péturssonar sem skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

4) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um koltvísýringslosun nýrra fólksbifreiða og nýrra léttra atvinnuökutækja og um niðurfellingu reglugerða (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011 Kl. 10:22
Nefndin fjallaði um drög að áliti til utanríkismálanefndar. Samþykkt að fresta afgreiðslu til næsta fundar.

5) Önnur mál Kl. 10:32
Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur mikilvægu hlutverki að gegna skv. þingskaparlögum, meðal annars þegar kemur að málum sem varða æðstu stjórn ríkisins. Það er því nauðsynlegt að verklag og ákvarðanir nefndarinnar, og ekki síst forystu hennar, séu vel ígrundaðar og vandaðar í hvívetna. Áhyggjuefni er þegar formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hrapar ítrekað að ályktunum og gefur sér niðurstöðu fyrir fram í flóknum málum, nú síðast í málum sem varða hæfi ráðherra sjávarútvegsmála. Þar hefur þess ekki verið gætt að málefnaleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi við meðferð mála í nefndinni, með því að veita ráðherra eðlilegt færi á því að skýra orð sín, sem og að neita nefndarmönnum um frekari gögn í málinu, áður en ákvörðun er tekin um frumkvæðisathugun nefndarinnar.

Orri Páll Jóhannsson, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson og Þorsteinn Sæmundsson tóku undir bókunina.

Helgi Hrafn Gunnarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Umrædd frumkvæðisathugun er grundvölluð á 8. tölul. 13. gr. þingskapa, er vel ígrunduð og er beinlínis til þess fallin að veita ráðherra eðlilegt færi á að skýra orð sín og veita nefndarmönnum öll tilheyrandi gögn í málinu. Frumkvæðisathugun felur ekki í sér ályktun og er ekki niðurstaða.

Guðjón Brjánsson og Andrés Ingi Jónsson tóku undir bókunina.

Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Í 19. gr. þingskaparlaga segir: „Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi“
Að loknum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, 6. desember sl. fjallaði þingmaðurinn Guðmundur Andri Thorsson opinberlega um efni fundarins á þann veg að ekki verður annað séð en að um skýrt brot á lögum um þingsköp sé að ræða. Um leið og það er harmað að nefndarmaður skuli rjúfa trúnað og rýra þar með traust á störfum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, eru athugasemdir þar að lútandi hér með færðar til bókar.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 10:44