68. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, föstudaginn 5. júní 2020 kl. 10:15


Mætt:

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (ÞSÆ) formaður, kl. 10:15
Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS) 1. varaformaður, kl. 10:15
Andrés Ingi Jónsson (AIJ), kl. 10:15
Birgir Ármannsson (BÁ) fyrir Brynjar Níelsson (BN), kl. 11:05
Guðjón S. Brjánsson (GBr) fyrir Guðmund Andra Thorsson (GuðmT), kl. 10:15
Kolbeinn Óttarsson Proppé (KÓP), kl. 10:15
Óli Björn Kárason (ÓBK), kl. 10:15
Þorsteinn Sæmundsson (ÞorS), kl. 10:15
Þórunn Egilsdóttir (ÞórE), kl. 10:15

Nefndarritari: Björn Freyr Björnsson

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 10:15
Frestað.

2) 325. mál - þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið Kl. 10:19
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Hannes Heimisson frá utanríkisráðuneytinu.

3) 279. mál - stjórnarskipunarlög Kl. 10:45
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

4) 840. mál - þingsköp Alþingis Kl. 10:58
Nefndin ákvað að Þorsteinn Sæmundsson yrði framsögumaður málsins.

5) Frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja Kl. 10:59
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Hildi Evu Sigurðardóttur, forstöðumann nefndasviðs Alþingis.

Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, 6. desember 2019, samþykktu Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Andrés Ingi Jónsson, að hefja frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja. Samkvæmt 13. grein þingskaparlaga skal slík athugun fara fram komi beiðni frá að minnsta kosti fjórðungi nefndarmanna.
Áður en beiðni um frumkvæðisathugun nefndarinnar var lögð fram komu gestir fyrir nefndina meðal annars sérfræðingar í stjórnsýslurétti frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og fulltrúar forsætisráðuneytisins sem fóru yfir og útskýrðu skráðar og óskráðar reglur um hæfi ráðherra almennt.
Eftir að frumkvæðisathugun hófst óskaði nefndin eftir greinargerð frá ráðherra með tilteknum upplýsingum er varðar lagaákvæði sem gilda við mat á hæfi ráðherra, verklag við mat á hæfi hans með tilliti til skráðra og óskráðra hæfisreglna stjórnsýsluréttar og hvort og þá með hvaða hætti hafi reynt á hæfi ráðherrans í málum tengdum Samherja og/eða tengdum aðilum. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið svaraði beiðninni með ítarlegri greinargerð dagsettri 16. janúar 2020. Ráðherra mætti síðan á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 22. janúar 2020 og gerði frekari grein fyrir þeim atriðum er beiðnin laut að og svaraði spurningum nefndarmanna.
Á fundi nefndarinnar þann 4. mars 2020 var málið rætt og nefndarmenn sammæltust um að kalla sérfræðinga aftur til fundar við nefndina og þrír nefndarmenn þau Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Andri Thorsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir ákváðu að senda framhaldsfyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Óskuðu þau eftir skriflegum svörum við 16 spurningum með bréfi þann 9. mars. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið svaraði spurningunum með bréfi dagsettu 23. mars 2020.
Á fundi nefndar þann 4. júní komu gestir fyrir nefndina meðal annars sérfræðingar í stjórnsýslurétti og svöruðu spurningum nefndarmanna.
Eftir umfjöllun nefndarinnar liggur eftifarandi fyrir.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur engra hagsmuna að gæta af Samherja eða tengdum félögum í skilningi stjórnsýslulaga, hvorki fjárhagslegra né persónulegra. Samkvæmt lögum metur ráðherra hæfi sitt sjálfur og ekkert hefur komið fram um að framkvæmd eða verklag á því mati hafi farið í bága við lög og reglur.
Ég tel frekari könnun tilgangslausa og tel ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa frumkvæðisathugun innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Birgir Ármannsson, Óli Björn Kárason, Þórunn Egilsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé tóku undir bókunina.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Eitt af verkefnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er að hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í 2. mgr. 8. tölul. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis segir að komi beiðni um slíka frumkvæðisathugun frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna skuli hún fara fram. Þessi réttur minni hlutans er sérstaklega mikilvægur í ljósi þess að alla jafnan beinast frumkvæðisathuganir að verklagi og ákvörðunum ráðherra sem sitja í skjóli meiri hluta þings. Það er jafn mikilvægt að skýrt sé hverjar lyktir frumkvæðisathugana nefndarinnar eru. Meiri hluti nefndarinnar hefur fært til bókar að hann telji ekki ástæðu til frekari skoðunar á hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja. Minni hluti nefndarinnar telur málið hins vegar ekki fullrannsakað og hefur því óskað eftir frekari gestakomum og að aflað verði frekari gagna í málinu.
Ágreiningur er því um framhald málsins á milli þess hluta nefndarmanna sem óskaði eftir frumkvæðisathuguninni og meiri hlutans sem frá upphafi var mótfallinn því að þessi athugun færi fram. Þann ágreining mætti gera út um á tvennan máta. Leggist meiri hlutinn gegn frekari gestakomum gæti hann lagt til að afgreiða málið frá nefndinni með skýrslu til Alþingis þar sem mætti skýra frá helstu sjónarmiðum til stuðnings afstöðu nefndarmanna til málsins. Önnur nálgun til þess að leysa úr þessum ágreiningi væri að fela framsögu málsins nefndarmanni sem telur ástæðu til frekari skoðunar á því. Meiri hlutinn hefur lagst gegn báðum þessum leiðum.
Afstaða meiri hlutans ber merki um vanvirðingu fyrir réttindum og hlutverki minni hlutans á þingi, ýtir undir grunsemdir um samtryggingu og leyndarhyggju, lítilsvirðir sérstakt eftirlitshlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og er til þess fallin að veikja Alþingi og traust almennings á því. Minni hlutinn harmar þessa afstöðu.

Andrés Ingi Jónsson og Guðjón Brjánsson tóku undir bókunina.

Andrés Ingi Jónsson lagði til að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir yrði framsögumaður málsins í stað Líneikar Önnu Sævarsdóttur. Gengið var til atkvæða um tillöguna.

Andrés Ingi Jónsson, Guðjón Brjánsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir greiddu atkvæði með tillögunni.

Birgir Ármannsson, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Sæmundsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Þórunn Egilsdóttir greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Var tillagan felld með sex atkvæðum gegn þremur.

6) Beiðni um úrskurð forseta Kl. 12:25
Nefndin ræddi um almennar málalyktir frumkvæðisathugana nefnda skv. þingsköpum.

Var ákveðið að óska úrskurðar forseta með vísan til 5. mgr. 8. gr. þingskapa Alþingis.

7) Önnur mál Kl. 12:30
Frestað.

Fundi slitið kl. 12:30